Lög Þjóðbrókar

Lög Þjóðbrókar, félags þjóðfræðinema við Háskóla Íslands

1. Félagið
1. Félagið heitir Þjóðbrók, félag þjóðfræðinema við Háskóla Íslands.
2. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. Tilgangur
Tilgangur félagsins er:
a) Að efla þjóðfræðina innan Háskóla Íslands og vekja fólk til umhugsunar um stöðu þjóðfræðinnar í nútíma þjóðfélagi.
b) Að auka tengsl þjóðfræðinnar við aðila sem vinna að varðveislu þjóðmenningar og um leið að auka möguleika nemenda á störfum á þessu sviði.
c) Að auka félagsstarf meðal nemenda í þjóðfræði og um leið að endurvekja þjóðlegar skemmtanir.
d) Að efla tengsl við önnur nemendafélög innan Háskóla Íslands.

3. Félagsmenn
1. Félagsmaður getur orðið hver sá sem stundar nám í þjóðfræði í grunn- eða framhaldsnámi við Háskóla Íslands og greiðir árgjald sitt til félagsins.
2. Aukafélagar geta orðið kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands, þeir sem stunda nám þjóðfræði erlendis og útskrifaðir þjóðfræðingar. Aukafélagar greiða hálft árgjald og njóta hvorki atkvæðisréttar né hafa kjörgengi.
3. Heiðursfélagi getur orðið sá sem unnið hefur óeigingjarnt starf í þágu þjóðfræðinema. Hann skal kosinn á aðalfundi með a.m.k. ¾ hlutum greiddra atkvæða.
4. Félagsmenn skulu njóta fríðinda umfram aðra nemendur.

4. Fundir og samkomur
1. Aðalfundur skal haldinn í lok vorannar ár hvert. Hann skal boða með minnst viku fyrirvara og vera vel auglýstur.
2. Lögum félagsins er einungis hægt að breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skal leggja fram skriflega til stjórnar eigi síðar en þremur dögum fyrir aðalfund og auglýstar. Heimilt er að bera upp tillögur um breytingar á lagabreytingatillögum á aðalfundi.
3. Mál sem borin eru upp á aðalfundi þurfa meirihluta greiddra atkvæða til að teljast samþykkt. Tillögur til lagabreytinga skulu hljóta a.m.k. 2/3 hluta atkvæða félaga á aðalfundi til að öðlast gildi.
4. Dagskrá aðalfundar skal vera eins og hér segir.
a) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b) Skýrsla fráfarandi formanns.
c) Skýrsla fráfarandi gjaldkera.
e) Ákvörðun árgjalda komandi starfsárs.
f) Lagabreytingar.
g) Kosningar samkvæmt 5. kafla.
h) Önnur mál.
5. Á aðalfundi skal leggja fram reikninga félagsins. Reikningsár er á milli aðalfunda.
6. Nýnemafundur skal haldinn innan tveggja vikna frá upphafi kennslu í september ár hvert. Þar skal kjósa nýnemafulltrúa og í þau embætti sem ekki hafa verið mönnuð.
7. 1/3 hluti félaga getur boðað til almenns félagsfundar. Stjórn er skylt að fara að ályktunum félagsfundar enda sitji a.m.k. helmingur félaga fundinn.
8. Hægt er að samþykkja vantraust á stjórn félagsins á almennum félagsfundi. Til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
9. Stjórn, ásamt námsbrautarfulltrúum þjóðfræðinema og kennurum í þjóðfræði, skal boða til félagsfundar mars ár hvert þar sem kynnt er námsframboð næsta vetrar.
10. Ár hvert skal halda þorrablót.

      5. Kosningar
1. Kosningarétt og kjörgengi hafa allir fullgildir félagar.
2. Kosningarétt og kjörgengi til kosninga um námsbrautarfulltrúa og nemendafulltrúa hafa allir skráðir nemendur í þjóðfræði við Háskóla Íslands.
3. Kosningar skulu vera leynilegar.
4. Atkvæði skulu talin strax eftir kosningar fyrir opnum tjöldum.
5. Falli atkvæði jöfn skal kjósa að nýju. Falli atkvæði jöfn í annað sinn skal beita hlutkesti.
6. Auglýsa skal eftir framboðum með minnst tveggja vikna fyrirvara. Framboð þurfa að hafa borist stjórn félagsins að minnsta kosti þremur dögum fyrir aðalfund.
7. Kosningar skulu fara þannig fram.
a) Kjör á formanni.
b) Kjör á gjaldkera.
c) Kjör á ritara.
d) Kjör á skemmtanastjóra
e) Kjör á vefsstjóra/ljósmyndara
f) Kjör á námsbrautarfulltrúa MA nema
g) Kjör á ritstjórn Slæðings.
h) Kjör á námsbrautarfulltrúa BA nema fer fram á fyrsta fundi fullskipaðrar stjórnar.

i) Kjör á fulltrúum í þorrablótsnefnd fer fram á nýnemakvöldi að hausti. Fulltrúar alls skulu vera fjórir. 
8. Takist ekki að manna öll embætti félagsins á aðalfundi skal taka þau mál upp á nýnemakvöldi að hausti.

 

      6. Kjörnir fulltrúar
1. Stjórn félagsins skipa fimm nemendur: formaður, gjaldkeri, ritari, skemmtanastjóri og vefstjóri/ljósmyndari. Nemendur á fyrsta ári eiga áheyrnarfulltrúa í stjórn sem hefur þar fullt málfrelsi og tillögurétt. Stjórn áskilur sér þann rétt að kalla fleiri nemendur til starfa ef þörf krefur.
2. Formaður skal leiða störf stjórnar og gefa aðalfundi skýrslu um störf stjórnar. Hann er talsmaður félagsins út á við og áheyrnarfulltrúi í stjórn Félags þjóðfræðinga. Formaður skal einnig vera fulltrúi þjóðfræðinema í FóM – samtökum nemendafélaga félags- og mannvísindadeildar ásamt námsbrautarfulltrúum.
3. Gjaldkera ber að gæta fjármuna félagsins og annast innheimtu félagsgjalda auk þess að halda skrá yfir félagsmenn. Hann skal gera grein fyrir fjárhag félagsins á aðalfundi og leggja fram tillögu um félagsgjöld fyrir komandi starfsár á aðalfundi.
4. Ritari skal annast skjalavörslu og bréfaskriftir fyrir félagið. Ritari er staðgengill formanns í forföllum hans. Hann er ábyrgur fyrir útgáfu félagsskírteina.
5. Skemmtanastjóri hefur yfirumsjón með viðburðum nemendafélagsins. Hans hlutverk er að sjá um samskipti við aðila sem bjóða upp á vísindaferðir og aðra viðburði.
6. Vefstjóri/ljósmyndari er ábyrgur fyrir heimasíðu Þjóðbrókar. Honum er heimilt að kalla til liðs við sig þá nemendur sem hann kýs til vinnu vefsins. Einnig er hann ábyrgur fyrir ljósmyndun á viðburðum og skal hann sjá til þess að ljósmyndir séu settar inn á vef félagsins.
7.
Nýnemafulltrúi skal vera tengiliður nýnema við stjórn félagsins.
8. Þorrablótsnefnd skal skipuleggja þorrablót þjóðfræðinema.
9. Ritstjórn Slæðings annast útgáfu rits þjóðfræðinema og ber ábyrgð á starfsemi þess. Hún skal kalla til liðs við sig þá nemendur sem hún kýs til vinnu ritsins.
10. Námsbrautarfulltrúar
a) Námsbrautarfulltrúar skulu sitja fundi námsbrautar í þjóðfræði, sem er sameiginleg með safnafræði. Þeir skulu gæta hagsmuna þjóðfræðinema þar og sjá um að kynna nám í þjóðfræði hvenær sem tækifæri gefst til. Þeir skulu vera öðrum nemendum til ráðgjafar um hvað það er sem viðkemur námi í þjóðfræði við Háskóla Íslands og eru bundnir trúnaði við nemendur.
b) Fyrir hönd þjóðfræðinema skal annar námsbrautarfulltrúinn sækja deildarfundi sem deildarstjóri félags- og mannvísindadeildar boðar til, þar sem nemendur eiga rétt á fulltrúa fyrir sína hönd.
c) Námsbrautarfulltrúar skulu vera fulltrúar þjóðfræðinema í stjórn FóM, samtökum nemendafélaga félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands ásamt formanni.
d) Námsbrautarfulltrúar skulu funda með stjórn Þjóðbrókar eftir þörfum til að halda stjórn upplýstri um það sem er að gerast í skólasamfélaginu.
e) Námsbrautarfulltrúi BA nema verður hlutverk innan stjórnar, og fara kosningar til þessa hlutverks fram á fyrsta fundi fullskipaðrar stjórnar.

 

7. Útgáfa
1. Stjórn félagsins er skylt að halda úti heimasíðu. Skal síðan miðla upplýsingum til nemenda og vera uppfærð reglulega.
2. Slæðingur – rit þjóðfræðinema skal koma út a.m.k. einu sinni á ári.

8. Gildistaka
Við samþykkt þessara laga á aðalfundi falla eldri lög úr gildi.

 

Lög þessi tóku gildi við samþykkt lagabreytinga á aðalfundi þann 10. maí 2013