Vor 2018

Þá er skólaárinu lokið og til hamingju allir með það!

Smá recap af önninni fyrir ykkur en eins og ég skrifaði í seinasta pósti þá byrjuðum við önnina á að fara í Gróttu sem, eins og alltaf, var ótrúlega skemmtilegt og æðisleg stemning hjá öllum að segja reynslusagnir af dularfullum atburðum. Pálínuboðið um kvöldið var hlaðið alls konar kræsingum og fóru allir sáttir og mögulega illa sofnir heim.

Það voru nokkrir rólegir atburðir hjá okkur eins og spilakvöld, safnanótt, sjósund og hópferð á sýningu Improv Ísland sem var lygilega fyndið! Ekki má gleyma heimsókn okkar til forsetans en Guðni tók á móti okkur með pönnsur og kaffi og leyfði okkur að rölta um Bessastaði. Bæði brækur og óbrækur mættu og var þetta fjölmennasta ferðin okkar þetta ár! Slæðingur var gefinn út eftir nokkurra ára fjarveru og var haldið útgáfupartý heima hjá ritstjóra þess. Við vonum bara að þeirri vinnu verði haldið áfram svo hægt verði að gefa út fleiri!

Ef við förum yfir nokkra ó svo ekki rólega atburði þá þarf fyrst að nefna Þorrablótið! Í ár var þemað ævintýri og stóð þorrablótsnefndin sig (Anna Karen, Atli Karl og Sandra Líf) eins og hetjur með einum færri í nefndinni heldur en er vanalega. Blótið var í salnum Húnabúð í Skeifunni og atriði voru ekki af verri endanum með kennaragrín frá stjórninni, pubquiz frá nefndinni, hljómsveitin Omotrack spilaði og að sjálfsögðu happdrættið góða. Eftir dagskrána var dansað eins og enginn var morgundagurinn.

Vísindaferðirnar voru nokkrar og má þá segja að vísindaferðirnar hjá Coca-Cola á Íslandi og Smáratívolí hafi staðið uppi sem þær skemmtilegustu. Þær voru nokkrar sem þurftu að bíða betri tíma og ætla ég rétt að vona að næsta stjórn bóki þær tímanlega!! Ikea og neyðarlínan svo eitthvað sé nefnt 😛

Félag Þjóðfræðinga á Íslandi, Þjóðbrók, Þjóðfræði við Háskóla Ísland og rannsóknasetur HÍ á Ströndum héldu svo Húmorsþing á Hólmavík þar sem allir voru velkomnir en þar var málþing um húmor, nýja þjóðfræðisetrið opinberað og skemmtidagskrá með uppistandi, pubquizi og fleira svo eitthvað sé nefnt og svo dansað og spjallað út í nóttina.

Að lokum vil ég bara þakka fyrir ótrúlega skemmtilegt miðprófadjamm sem var á Lebowski og magnaða lokahófið sem var heima hjá mér í greinilega allt of lítilli íbúð en ég bara bjóst aldrei við þeim fjölda sem mætti sem gerði þetta enn skemmtilegra og var algjörlega fullkominn endir á þessu ári sem ég hef fengið að njóta sem formaður Þjóðbrókar. Í von um þannig mætingu allt næsta ár á alla (okei flesta) viðburði sem næsta stjórn mun koma til með að skipuleggja, þá eru þetta mín lokaorð því næsta stjórn verður kosin í kvöld 😀

Takk fyrir lærdómsríkt ár <3333

-Ragnhildur Sara

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *