Hólmavík og halloween!

Sælar kæru brækur! Skemmtanastýran ykkar situr hér við lyklaborðið og lætur líða úr sér þreytu vikunnar, en langar aðeins að leyfa forvitnum fylgjendum að vita hvað er að frétta 🙂

14643079_10210268915790228_544062685_nSíðustu helgi fóru 14 hressir þjóðfræðinemar saman í haustferð Þjóðbrókar til Hólmavíkur, sem var stórskemmtileg og vel heppnuð, enda ekki annað hægt með svona frábæran hóp. Í haustferðinni fórum við í tröllaskoðunar og álagablettagöngu um Kollafjörð á Ströndum með þjóðfræðingnum Jóni Jónssyni, sem endaði í aflausn synda okkar í Kollafjarðarneskirkju. Þaðan fórum við á Galdrasýningu á Ströndum inni á Hólmavík þar sem við fræddumst um nábrækur, tilbera og alls kyns kukl. Frá Hólmavik lá svo leiðin inn í Bjarnarfjörð til að kíkja á Kotbýli Kuklarans, og Gvendarlaug hins góða sem bæði standa við Hótel Laugarhól. Þar hittum við fyrir þyrlu sem lenti á sama tíma og við, en hún tilheyrir crew-inu sem er að taka upp stórmyndina Justice League í Djúpavík á Ströndum. Okkur til ama var Ben Affleck ekki einn af áhöfninni… Í vonbrigðum okkar hentumst við yfir á Drangsnes þar sem við skelltum okkur í heitu pottana niðri við sjó, í dásamlegu veðri! Þegar allir voru orðnir gegnsósa og glaðir skondruðum við aftur frá Drangsnesi og inn á Hólmavík þar sem við fengum dýrindis pizzahlaðborð á Café Riis – þar sem hvítlauksbrauðið sló í gegn!

Kvöldinu var svo eytt í Sævangi að skoða Sauðfjársetur á Ströndum, Álagablettasýningu og ókláraða uppsetningu af nýrri sýningu sem opnar á allra næstu misserum – á meðan Dagrún Ósk leiddi liðið í gegnum sýningarnar hamaðist stjórnin við að brugga glæsilega bollu fyrir liðið. Síðan var sungin draugasaga, Atli Karl nýnemafulltrúi mætti í framhaldi af því með klikkað pub quiz, og eftir það tók gleðin völd.

Daginn eftir, þegar allir höfðu náð að rogast á fætur, skruppum við yfir í Hveravík til að hitta okkar ástkæru Kristínu Einars, þjóðfræðing og fyrrum þjóðfræði-kennara við Háskóla Íslands. Hún tók á móti okkur með glæsilegum morgdegismat; sjávarréttasúpunni hans Gunnsa, heitu brauði, eplaköku og ís, ávöxtum og sérlega góðum blóðappelsínusafa. Við sátum á spjalli þar í dágóða stund, en þar lauk síðan för og hópurinn lokaði góðri ferð með hópknúsi á planinu fyrir framan Hveravík. Takk!

img_0429

Status á sunnudegi í haustferð

Sumir tóku nokkra daga í að jafna sig eftir þessa stórkostlegu ferð, en þó að hún sé búin, þá er sko nóg að gera það sem eftir er vetrar 🙂

Nú í kvöld, föstudaginn 14.október, eru nokkrar brækur að fara og vera áhorfendur í sjónvarpssal í sjónvarpsþættinum Logi – spennandi! Í næstu viku er svo verkefnavika í Þjóðfræðinni, en við látum það ekki stoppa okkur í gleðinni þvi föstudaginn 21. október höldum við í vísindaferð í Bjarta framtíð.

Nú að því allra besta – ÞAÐ VERÐUR HALLOWEEN PARTÝ ÞANN 28. OKTÓBER! Risa partý, haldið í samvinnu við Norm, Mentor, Mágus, Homo og Ökonomíu, þetta er eitthvað sem þið viljið alls ekki missa af! Takið daginn frá, og það koma fleiri upplýsingar von bráðar!

Síðast en ekki síst viljum við minna á að Gróttuferðin okkar verður þann 11. nóvember, en þá ætlum við í einnar nætur ferð út í fræðslusetur við vitann á Gróttu á Seltjarnarnesi. Elsa Ósk þjóðfræðingur og kennari kemur með okkur, við höfum pálínuboð, segjum draugasögur og höfum það gott í myrkrinu í nóvember.

Þetta er auðvitað ekki tæmandi listi af viðburðum fram að jólafríi, en ágætis byrjun. Ég hlakka til að skemmta mér með ykkur í vetur!

Ykkar einlæg,
Agnes Jóns

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *