Skjöldur forvarnarfélag hjúkrunarfræðinema er komin í samstarf við Krabbameinsfélag Reykjavíkur varðandi sérstakt forvarnarverkefni tengt notkun rafsígaretta.

Verkefnið felur í sér fræðslu til 10. bekkinga eftir áramót og verður unnið með efni sem félagið hefur nú þegar sett saman af fagfólki. Kennsla í efninu verður 9. nóvember í húsi Krabbameinsfélagsins og er skyldumæting á það námsskeið ef fólk vill síðan taka þátt í að fræða. Einnig eru þeir nemendur sem eingöngu vilja fræðast meira um rafsígarettunotkun velkomin.

Þeir nemendur sem hafa áhuga á að mæta ættu endilega að kíkja inn á FB hóp síns árgangs og kynna sér fyrirkomulagið þar og skrá sig, en einnig er velkomið að senda okkur skilaboð ef einhverjar spurningar eru.

Kv. Skjaldarstúlkur

Starfsárið 2016-2017 hafið

Nú hefur Skjöldur ákveðið að taka aftur til starfa af fullum krafti. Forvarnarstarfið sem Skjöldur hefur haldið úti síðustu árin hefur byggst á sjálfsmyndarstyrkingu og mun það einnig vera fókusinn í ár.

Farið verður í haust/vinnubúðir þann 14.-16. október með nokkrum kennurum sem hafa reynslu af því að leiðbeina Skjaldarmeðlimum og verður sú ferð uppfull af fræðslu, leikjum og sjálfsskoðun í fallegu umhverfi. Þessi ferð er skyldumæting fyrir alla þá hjúkrunarfræðinema sem huga á að halda erindi í framhaldsskólum, en það er einmitt kjarninn í starfi Skjaldar. Nemendur af öllum árum eru velkomnir og það er ekkert skilyrði að halda fræðslu þó svo að þú komir með í ferðina. Einnig getum við bætt við okkur stjórnarmeðlimum og hvetjum áhugasama til að hafa samband við okkur varðandi það.

Gaman er að segja frá því að 3. og 4. árs nemar geta nýtt sér starf í Skildi sem valáfanga upp á 4 einingar og því er um að gera fyrir áhugasama að skrá sig í ferðina með því að senda skilaboð á FB síðu Skjaldar, fyrir 30. september. Skilyrði fyrir því að nýta starfið sem val eru að mæta í ferðina, halda að minnsta kosti tvö fræðsluerindi í framhaldsskólum og skila inn úttekt á upplifun og starfi sínu í lok annar.

Endilega fylgist með Skildi á FB: skjoldurforvarnir1 og hafið samband ef spurningar vakna:)

Nýtt starfsár!

Kæru samnemendur, nú er nýtt starfsár Skjaldar hafið!

Á síðustu vikum hefur ný stjórn tekið við og fyrsta mál okkar á dagskrá er endurskoðun laga félagsins. Á facebooksíðu Skjaldar og þessari síðu verður birt á næstu dögum hverjir sitja í nýju stjórninni. Við erum spenntar að byrja nýtt ár og munum einnig birta nýju lögin þegar búið er að lagfæra þau og setja inn viðeigandi breytingar. Einnig auglýsum við stöðu gjaldkera félagsins, áhugasamir geta sent skilaboð á okkur í gegnum facebooksíðu okkar.

 

SJÁLF

6h heilsugæslunnar stendur fyrir hamingja, hugrekki, hollusta, hreyfing, hreinlæti og hvíld. Undir hamingju eru flokkarnir sjálfsmynd, líkamsmynd og geðheilsa. Góð sjálfsmynd er mikilvæg undirstaða þess að okkur líði vel og við séum heilbrigð. Sett hafa verið fram skref til að styrkja á sjálfsmyndina, sem eru birt á 6h.is.

1. Sátt við sjálfa(n) þig

– Það er enginn fullkominn og því skaltu ekki reyna að vera það. Gerðu frekar eins vel og þú telur þig geta og vertu sátt(ur) við það.

– Lærðu á mistökum þínum. Viðukenndu að þú hafir gert mistök því allir gera mistök á lífsleiðinni. Þau eru hluti af þroska þínum.

– Hugsaðu um hverju þú getur breytt og hverju ekki. Ef þú vilt breyta einhverju, byrjaðu þá strax. En ef það er eitthvað sem þú getur ekki breytt (t.d. hæð þín), sættu þig þá við það og lærðu að meta það.

2. Jákvæð hugsun

– Hugsaðu jákvætt um sjálfa(n) þig. Ef þú finnur fyrir neikvæðum hugsunum um sjálfa(n) þig reyndu þá meðvitað að stoppa það t.d. með því að segja eitthvað jákvætt upphátt. Einnig er gott ráð að skrifa niður 3 jákvæð atriði um þig á hverjum degi.

3. Ánægja með lífið

– Prófaðu nýja hluti, þú gætir fundið dulda hæfileika.

– Hafðu trú á þér og skoðunum þínum. Láttu ljós þitt skína.

– Skemmtu þér. Njóttu þess að vera með vinum þínum og fjölskyldu. Ekki bíða eftir að hlutirnir gerist, hafðu frumkvæði á samskiptum.

4. Láttu vita ef þér líður illa

– Leitaðu til þeirra sem þér þykir vænt um, það er oft gott að tala við einhvern.

– Vertu hjálpsamur við vini og fjölskyldu. Vinsemd og hjálpsemi í garð annarra styrkir sjálfsmynd þína.

5. Finndu styrkleika þína og þekktu veikleika þína

– Allir hafa einhverja styrkleika. Þú þarft að finna þína og mundu að hæfileikarnir styrkjast og þróast með þér.

– Hugsaðu um styrkleika þína og láttu drauma þína rætast.

– Settu þér markmið og hvernig þú ætlar að ná þeim. Reyndu að halda þeim markmiðum sem þú setur þér.

 

Góð sjálfsmynd, heilbrigð líkamsímynd og góð geðheilsa eru stoðir hamingjunnar og með því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja þessa þætti getum við lifað eins hamingjusömu lífi og við sjálf kjósum okkur. Upp með egóið 🙂

Góð sjálfsmynd er gulli betri

Sigríður Björk Kristinsdóttir skrifaði árið 2008 BS ritgerð um tengsl sjálfsmyndar og námsárangurs. Efnið er áhugavert og hvetjum við ykkur eindregið til að lesa ritgerðina.

Hér er útdrátturinn:

“Flestar hugmyndir sem komið hafa fram um sjálfsmynd, sjálfsálit og sjálfstraust
benda til þess að það skipti máli að hafa góða sjálfsmynd þegar kemur að
námsárangri þar sem líkurnar á að ganga vel í námi séu meiri en ella ef sjálfsmyndin
er góð. Hvort sem leitað er eftir áliti kennara eða leitað á veraldavefnum virðist sem
flest bendi einmitt til þess að svo sé og þær hugmyndir eru uppi að hægt sé að setja
samasemmerki á milli hárrar sjálfsmyndar og velgengni. En er það raunin?
Baumeister, Campbell, Krueger og Vohs gerðu árið 2003 könnun á þeim
rannsóknum sem áður höfðu verið gerðar á sjálfsáliti og m.a. sambandi þess við
námsárangur og félagslega stöðu einstaklinga og komust að því gagnstæða, þ.e. að
mjög lítil fylgni væri á milli þess að hafa gott sjálfsálit og að ganga vel í skóla eða
hafa góða félagslega stöðu. Í þessari ritgerð eru skoðuð ýmis nýleg skrif um
sjálfsmynd, sjálfsálit og sjálfstraust og reynt að komast til botns í hinum misvísandi
skilaboðum. Þá eru könnuð viðhorf tveggja kennara til málsins. Meginniðurstaðan er
sú að það skipti ekki máli að efla sjálfsálit í þeim tilgangi eingöngu að auka
námsárangur. Þeim nemendum sem hafa sterkt sjálfsálit gengur ekki endilega betur í
námi en þeim nemendum sem hafa veikt sjálfsálit. Sjálfstraust er hins vegar
mikilvægur lykill að námsárangri.”

Ritgerðin í heild er síðan hér fyrir þá sem hafa áhuga:
http://skemman.is/stream/get/1946/1869/4900/1/SigridurB.Edapril20.pdf

Upp með egóið! 🙂