Lög Norm

1.gr.

Félagið heitir Félag Félagsfræðinema. En kallast Norm í daglegu tali.

2. gr.

Félagar eru allir þeir sem stunda nám við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og greitt hafa árgjald félagsins á skólaárinu.

3. gr.

Hlutverk félagsins er að hafa forgöngu í félagslífi félagsfræðinema, gæta hagsmuna þeirra í hvítvetna og vera fulltrúi þeirra innan Háskólans sem utan.

4. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn að vori. Boða skal til hans með minnst sjö daga fyrirvara og skal fundurinn auglýstur á öllum þeim stöðum er kennsla fer fram á vegum deildarinnar.

5. gr.

Dagskrá aðalfundar:

 1. Kosning fundarstjórna og fundarritara
 2. Skýrsla fráfarandi stjórnar flutt og hún rædd ef þurfa þykir
 3. Gjaldkeri skal leggja fram reikninga félagsins til samþykktar
 4. Tillögur að lagabreytingum ræddar ef þær eru fyrir hendi og atkvæði greidd um þær.
 5. Embæddismenn félagsins kjörnir
  1. Kjósa skal formann, gjaldkera og formann skemmtinefndar. Kjósa skal í hvert embætti sérstaklega. Komi tvö eða fleiri framboð í hvert embætti og enginn frambjóðandi hlýtur meirihluta skal kosið aftur á milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu.
  2. Kjósa skal þrjá í skemmtinefnd.
  3. Kjósa skal hagsmunafulltrúa félagsins sem situr á námsbrautarfundum.
  4. Önnur mál

6.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð formanni, gjaldkera, formanni skemmtinefndar, þremur skemmtinefndarmeðlimum, hagsmunafulltrúa (nemendafulltrúi) og meðstjórnanda kosnum að hausti úr hópi fyrsta árs nema sbr. 18. gr. Í forföllum formanns skal formaður skemmtinefndar gegna störfum hans.

7. gr.

Formaður félagsins er helsti talsmaður félagsins út á við. Hann boðar aðalfund sem og félagsfundi eftir þörfum.

8. gr.

Skipa skal einn af meðlimum stjórnar sem ritara. Ritari skal halda gerðabók þar sem í eru skráðir stjórnarfundir, félagsfundir og allir helstu viðburðir deildarinnar.

9. gr.

Gjaldkeri félagsins sér um fjárreiður félagsins. Hann heldur utan um tekjur og gjöld félagsins og leggur á aðalfundi fram endurskoðaða reikninga þess.

10. gr.

Námsbrautarfulltrúi situr á námsbrautarfundum og gefur skýrslu til stjórnar um það sem þar fer fram. Einng skal námsbrautarfulltrúi sækja deildarfundi sem deildarstjóri félags- og mannsvísindadeildar boðar til. Fyrir hönd Félags Félagsfræðinema skal námsbrautarfulltrúi taka þátt í nefndarstörfum FÓM, nemendafélagi félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands.

11. gr.

Í skemmtinefnd eiga sæti þrír fulltrúar að formanni skemmtinefndar frátöldum. Nefndin hefur umsjón með öllu skemmtanahaldi innan félagsins. Nefndin skal standa að árshátíð í mars eða apríl ár hvert.

12. gr.

Kosning embættismanna á aðalfundi skal vera bundin og leynileg. Framboð skulu hafa borist í stjórn félagsins í upphafi þess fundar er kosning fer fram. Fari svo að framboð berist ekki í öll embætti sem kosið er í skal lýsa eftir framboðum á fundinum.

13. gr.

Vantraust á embættismenn félagsins skal borið fram skriflega og skulu minnst 10% félagsmanna skrifa undir það. Stjórn félagsins skal boða til félagsfundar um vantraust innan viku. Til að samþykja tillögu um vantraust þarf meira en helming atkvæða. Ef vantraust er samþykkt, skal kosið á ný til viðkomandi embættis á sama hátt og á aðalfundi.

14. gr.

Ef embættismaður segir af sér skal meðstjórnandi taka sæti hans. Formaður skemmtinefndar skal þó alltaf vera staðgengill formanns sbr. 6. gr.

15. gr.

Árgjald félagsins skal ákveðið af stjórn félagsins í upphafi skólaárs. Meðlimir stjórnar þurfa ekki að greiða félagsgjöld né þeir sem áður hafa setið í stjórn. Tekjum sem fást með árgjaldi skal varið til eflingar starfsemi félagsins.

16. gr.

Aðalfundir og almennir félagsfundir hafa æðsta úrskurðavald í málefnum félagsins og hafa félagar einir atkvæðisrétt. Til félagsfundar skal boða á sama hátt og aðalfundar, með þeirri undantekningu þó, að til félagsfundar skal að jafnaði boða til með þriggja daga fyrirvara. Stjórn félagsins er þó heimilt að boða til félagsfundar með styttri fyrirvara en þó skal haft samband við hvern einasta félagsmann.

17. gr.

Stjórn félagsins er skylt að boða til almenns félagsfundar ef 10% félagsmanna fer fram á það og skal beiðnin undirrituð af viðkomandi félagsmönnum.

18. gr.

Stjórn félagsins skal í upphafi haustmisseris halda kynningarfund um starfsemi félagsins fyrir fyrsta árs nema. Þar skal kosinn meðstjórnandi af fyrsta ári og tekur hann sæti í stjórn félagsins. Ef ekki hefur tekist að kjósa í öll embætti að vori skal það gert á þessum fundi.

20. gr.

Breytingar á reglum félagsins verða aðeins gerðar á aðalfundi og þarf hreinan meirihluta atkvæða fundarins til að samþykja tillögu um lagabreytingar. Tillögum að lagabreytingum skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en fjórum dögum fyrir aðalfund. Skulu þær birtar um leið og þær berast á þeim stöðum sem aðalfundur er auglýstur.

21. gr.

Lög þessi túlkar stjórn félagsins.

22. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og um leið falla úr gildi fyrri lög félagsins.

Leave a Reply

Your email address will not be published.