Saga Linguae

Eins og mörgum er kunnugt stendur tungumálakennsla í Háskóla Íslands frammi fyrir ákveðnum tímamótum. Með hverju ári sem líður hefur nemendum farið fækkandi og sumar greinar innan Deildar erlendra tungumála hafa einfaldlega horfið úr námsframboði. Niðurskurðarhnífurinn beinist að hugvísindagreinunum. Eitthvað þarf til bragðs að taka.

Vorið 2015 tóku fjögur nemendafélög sig saman og héldu sameiginlega árshátíð. Þetta voru félög frönsku-, ítölsku-, þýsku- og spænskunema sem öll voru þá lítil en staðráðin í því að halda uppi félagslífi innan deildarinnar. Árshátíðin heppnaðist með eindæmum vel og í kjölfarið fóru stjórnir félagana í viðræður. Allir voru sammála um að eitthvað yrði að gera til þess að viðhalda þeim góða anda sem skapaðist á árshátíðinni og lokaniðurstaðan varð sú að sameina skyldi nemendafélögin undir einn hatt.

Linguae var formlega stofnað í apríl 2015. Þar fóru Steinunn Friðriksdóttir, þáverandi formaður frönskunnar, Kristjana Ingvadóttir, þáverandi formaður ítölskunnar og Árný Lára Sigurðardóttir, formaður þýskunnar, fremstar í flokki* en fljótlega bættust við Brynhildur Ásgeirsdóttir og Þröstur Bjarkason, þýskunemar ásamt Erlu Guðnýju Pálsdóttur, ítölskunema. Fór svo að Brynhildur var kjörin fyrsti formaður félagsins. Þessi hópur myndar nú stjórn Linguae.

Markmið félagsins er að efla félagslíf nemenda innan Deildar erlendra tungumála og vera öflugur vettvangur fyrir tungumálanema til þess að taka sér pásu frá krefjandi skólastarfi. Það er von stjórnarmeðlima að Deild erlendra tungumála muni vaxa og dafna í kjölfarið og þetta sé aðeins upphafið af því sem koma skal.

* Auk þeirra komu að stofnun félagsins Guðjón Ingi Sigurðarson, Una Emelía Árnadóttir, Kristín Lilja Linnet og Karólína Ósk Þórsdóttir.