Lög

Lög Kumls samþykkt í september 2016

1. Almenn ákvæði

1.1. Nafn félagsins er Kuml, félag fornleifafræðinema.

1.2. Félagið hefur lögheimili og varnarþing í Reykjavík.

1.3. Merki félagsins er: 

                                                                                                                   Myndaniðurstaða fyrir kuml

 

1.4.

a) Félagsrétt eiga þeir sem stunda nám við fornleifafræði við Háskóla Íslands. Eða þeir sem fá undaþágu frá stjórn nemendafélagsins. Félagar teljast þeir einir, sem greitt hafa félagsgjald.

 

1.5. Markmið (hlutverk) félagsins er m.a.:

a) að vinna að hver konar hagsmunamálum félagsmanna.

b) að auka veg fornleifafræði sem fræðigreinar jafnt utan sem innan Háskóla Íslands.

c) að standa að fræðslufundum, rannsóknaræfingum, ferðalögum og annarri fræðslu- og kynningarstarfsemi.

d) að vinna að kynningu og samheldni félagsmanna.

e) að halda úti heimasíðu.

f) að gefa út Eldjárn, rit fornleifafræðinema við Háskóla Íslands.

2. Stjórn félagsins

2.1. Stjórn félagsins skipa fimm félagsmenn, formaður, varaformaður /gjaldkeri, ritstjóri  og nýnemafulltrúi. Að auki skal vera kosinn einn varamaður. Allir meðlimir stjórnarinnar eru virkir í stjórn. Kosið skal í embættin með beinni kosningu á aðalfundi og aukaaðalfundi sbr. greinar 3.4 og 3.8.

2.2. Formaður boðar til stjórnar- og félagsfunda. Formaður stjórnar stjórnarfundum og deilir út verkefnum.

2.3.  Varaformaður tekur sæti formanns ef hann er ekki við og hefur þá sömu réttindi og formaður. Einnig er varaformaður gjaldkeri Kumls og ber auk þess ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Gjaldkeri Kumls skal ennfremur hafa yfirumsjón yfir fjármálum Eldjárns, rits fornleifafræðinema við Háskóla Íslands, og söfnunarsjóði útskriftarnefndar. Skal fráfarandi gjaldkeri skila fjármálum í lok vormisseris til nýkjörins gjaldkera.

2.4. Ritari skrifar fundargerðir stjórnar-, aðal-, aukaaðal- og félagsfunda. Hann ber ábyrgð á öllu sem skriflega berst félaginu og fer frá því. Hann er jafnframt vefstjóri heimasíðu félagsins og ritstjóri Eldjárns.

2.5. Nýnemafulltrúi skal vera hagsmunafulltrúi nýnema.

2.6. Varamaður í stjórn skal taka sæti á fundum ef meðlimur stjórnar forfallast og hefur þá sömu réttindi.

2.7. Ekki skal líða meir en mánuður á milli stjórnarfunda.

2.8. Ef 2/5 hluti félagsmanna lýsir vantrausti á stjórn, eða einn eða fleiri stjórnarmenn, skal boða til félagsfundar  innan viku og greiða atkvæði um vantraustið. Sé það samþykkt skal kosin ný stjórn eða stjórnarmaður/menn. Einnig geta stjórnarmeðlimir boðað til félagsfundar vegna vantrausts á einn eða fleiri stjórnarmeðlimi.

2.9. Endurskoðandi skal vera fráfarandi gjaldkeri.

2.10. Aðrar nefndir skulu kosnar á aðalfundi eða aukaaðalfundi eftir þörfum og framkomnum tillögum. Þá er stjórn heimilt að skipa nefndir eftir því sem þörf krefur.

2.11. Félagið stendur fyrir kynningarstarfsemi m.a. til að upplýsa félagsmenn um starfsemi félagsins. Skal félagið halda úti heimasíðu. Síðan á að innihalda fréttir og upplýsingar er varða fornleifafræðinema. Vefstjóri annast uppfærslu síðunnar og ber ábyrgð á starfsemi hennar. Hætti vefstjóri milli aðalfunda skal stjórn félagsins skipa nýjan vefstjóra fram að næsta aðalfundi.

2.12. Félagsfundir, skulu haldnir eins oft og þurfa þykir. Þá skal stjórn kveða saman almennan félagsfund ef 20% félagsmanna eða 2 stjórnarmenn æskja þess.

2.13. Stjórn félagsins ákveður í upphafi starfsárs félagsgjöld í samræmi við þarfir félagsins. Heimilt er að greiða fyrir eina önn í senn og skal upphæðin nema helmingi heils árs félagsaðildar.  Félagsgjald fyrir báðar annir skal innheimta á fyrstu vikum haustannar. Vilji félagsmaður borga eina önn í senn skal félagsgjaldið innheimtast í byrjun þeirrar annar sem félagsmaður hyggst borga fyrir.

2.14.

a) Stjórn félagsins skal gefa út félagsskírteini fyrir félaga ár hvert.

b) Hyggist félagsmaður borga fyrir aðra önnina, ekki báðar, skal félagið gefa út skírteini félagsmannsins í byrjun þeirrar annar sem borgað hefur verið fyrir.

2.15.

a) Minnst tveir af fimm stjórnarmeðlimum skulu mæta á atburði félagsins.

b) Ef sú staða kemur upp að atburður sem félagið hefur ákveðið að taka þátt í hefur í för með sér fjárútlát fyrir stjórnarmeðlimi sem skylt er að mæta samkvæmt grein 2.15.a. greiðir félagið þann kostnað. Árshátíðin er undanskilin.

3. Aðalfundur

3.1. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok kennslu vorannar ár hvert og skal hann auglýstur rækilega með minnst viku fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað.

3.2. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

a) skýrsla stjórnar;

b) lagðir fram endurskoðaðir reikningar;

c) umræður um skýrslu og reikninga;

d) lagabreytingar ef einhverjar eru;

e) kosningar stjórnar og aðrar kosningar ef einhverjar eru;

f) önnur mál;

h) innsetning stjórnar;

3.3. Stjórn skal sjá um alla framkvæmd kosninga, auglýsa eftir framboðum og viðtöku þeirra, auglýsingu á framboðsfundi sé hans óskað, atkvæðagreiðslu, talningu atkvæða og tilkynna úrslit. Fráfarandi formaður stýrir aðalfundi eða tilnefnir sérstakan fundarstjóra og tilnefnir fundarritara.

3.4. Auglýst skal eftir framboðum í eftirtalin embætti minnst viku fyrir aðalfund:

a) Formann félagsins.

b) Þrjú sæti í stjórn félagsins (varaformaður, ritari og varamaður).

c) Einn fulltrúa grunnnema sem sinnir starfi nemenda-, deildar- og deildarráðsfulltrúa og hefur rétt til þess að mæta á fundi með stjórn. Þessi fulltrúi skal heita námsbrautarfulltrúi.

d) Einn fulltrúa framhaldsnema sem sinnir starfi tengiliðs milli framhaldsnema við stjórn nemendafélagsins og nemendaráðsfulltrúa og hefur rétt til þess að mæta á fundi með stjórn. Þessi fulltrúi skal heita framhaldsnemafulltrúi og vera framhaldsnemi sjálfur.

3.5. Alltaf skal kosið um embætti þó aðeins eitt framboð komi fram.

3.6. Félagsmenn hafa kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi, þá er þeir teljast félagar samkvæmt grein 1.4.

3.7. Kosningar skulu annað hvort vera leynilegar eða fyrir opnum tjöldum. Stjórn og félagsmenn skulu ákvarða fyrir hverja atkvæðagreiðslu á hvorn veginn henni skal háttað. Atkvæði skulu talin strax.

3.8. Framboðsfrestur er fram að kosningu. Kosningarrétt og kjörgengi á aðalfundi hafa félagsmenn. Á aukaaðalfundi skal gerð undanþága vegna nýnema. Enginn félagsmaður er kjörgengur til stjórnar meira en tvö ár í röð.

3.9. Takist ekki að manna öll embætti félagsins á aðalfundi skal taka þau mál upp á aukaaðalfundi að hausti.

3.10. Halda skal aukaaðalfund innan mánaðar frá upphafi kennslu haustannar ár hvert og skal auglýsa hann rækilega með minnst þriggja daga fyrirvara. Þar skal fara fram:

a) kosning á fulltrúa nýnema í stjórn félagsins. Og kjör í þau embætti sem ekki tókst að manna á aðalfundi

b) umræða og afgreiðsla þeirra mála sem aðalfundur hefur vísað til fundarins.

c) Ritstjóri Eldjárns skal tilkynna ritnefnd blaðsins.

3.11. Takist ekki að manna öll embætti á aukaaðalfundi skulu þau auglýst með tölvupósti til allra sem hafa rétt til framboðs í þau samkvæmt lögum félagsins. Skal þá gilda sú regla að fyrsta framboð sem berst til stjórnar Kumls í hvert embætti teljist gilt og sá einstaklingur sé þar með kjörinn, hafi hann framboðsrétt til embættisins.

4. Lög um Eldjárn

4.1. Á aðalfundi skal kjósa einn ritstjóra og skal hann tilkynna að lágmarki þrjá samstarfsmenn í ritstjórn á aukaaðalfundi, sbr. grein 3.10c í lögum Kumls. Um auglýsingar til framboðs vísast til greinar 3.4h. Skal ritstjórnin vera til aðstoðar og ráðuneytis ritstjóra um öll mál.

4.2. Rit fornleifafræðinema heitir Eldjárn, eitt rit skal gefið út ár hvert. Blaðið skal koma út fyrir lok hvers skólaárs. Ritstjóri ber ábyrgð á efni ritsins og öðru efni sem gefið er út í nafni Eldjárns.

4.3. Eldjárn er fríblað. Um fjármál blaðsins vísast til greinar 2.4 í lögum Kumls.

5. Lög

5.1. Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi eða aukaaðalfundi og þá með samþykki 2/3 hluta fundarmanna.

5.2. Lög þessi öðlast þegar gildi og eru önnur lög félagsins þar með úr gildi.

Leave a Reply

Your email address will not be published.