Saga Homo

 

Félag mannfræðinema var stofnað 6. október 1993. Áður höfðu stjórnmálafræði, félagsfræði og mannfræði verið saman í einu félagi, Samfélaginu, en því samstarfi var slitið fyrr um haustið. Félagar eru allir stúdentar sem stunda mannfræði til 60, 120 eða 180 eininga við Háskóla Íslands. Félagið var fyrst um sinn nafnlaust en haldin var samkeppni um nafn á félagið skömmu eftir stofnun þess. Af því tilefni var haldið bíókvöld á Bíóbarnum þar sem mannfræðinemar komu og horfðu saman á etnógrafíska kvikmynd um Huni Kuni indíána. Það nafn sem hlaut flest atkvæði viðstaddra var nafnið Vilhjálmur Stefánsson, eftir landkönnuðinum merka, sem Íslendingar vilja eiga eitthvað í, þótt fæddur sé og uppalinn í Kanada. Síðar urðu miklar deilur um nafnið, og ekki þótti öllum við hæfi að kenna sig við eina ákveðna persónu. Auk þess þótti nafnið ómeðfærilegt. Á aðalfundi í apríl 1996 var samþykkt að efna að nýju til samkeppni um nafnið á næsta skólaári. Á aðalfundi félagsins haustið 1996 var samþykkt nýtt nafn á félagið. Það nafn sem varð fyrir valinu var nafið HOMO sem líka fékk allmörg atkvæði í kosningunni 1993. Nafnið Homo hefur notið almennra vinsælda síðan, og þykir bæði smekklegra og meðfærilegra en fyrra nafn félagsins.