Lög Homo

I. Heiti félagsins, félagsmenn og markmið

1. gr.

Félagið heitir Homo, félag mannfræðinema við Háskóla Íslands.

2. gr.

Allir þeir sem skráðir eru til náms í mannfræði við Háskóla Íslands geta gerst félagar í Homo. Þá geta aðrir velunnarar félagsins fengið inngöngu ákveði stjórn Homo svo.

3. gr.

Markmið félagsins er að gæta hagsmuna mannfræðinema og hlúa að framgangi og ímynd fræðigreinarinnar jafnt innan Háskólans sem utan. Félagið stefnir að samvinnu mannfræðinema og áhugafólks um mannfræði hérlendis og erlendis. Félagið skal vera vettvangur öflugs félagslífs nemenda í mannfræði. Með það að markmiði skal selja félagsskírteini árlega á hóflegu verði til að stuðla að sem blómlegastri félagsstarfsemi Homo.

II. Stjórn félagsins

4. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð formanni, skemmtanastjóra, ritara, gjaldkera og námsbrautarfulltrúa og er hún kjörin til eins árs í senn. Með stjórn félagsins skal einnig starfa fulltrúi fyrsta árs nema.

5. gr.

Formaður félagsins er í forsvari þess og á að sjá til þess að það starfi samkvæmt lögum þessum. Hann boðar til stjórnafunda.

6. gr.

Ritari félagsins er staðgengill formanns. Ritari skal halda gerðabók, þar sem í eru skráðir fundir stjórnarinnar, almennir félagsfundir og allir aðrir helstu viðburðir er félagið varðar. Ritari skal sitja í ritstjórn og er tengiliður ritstjórnar og stjórnar. Ritari er ekki sjálfkjörinn ritstjóri. Sjá gr. 19.

7. gr.

Skemmtanastjóri er í forsvari fyrir skemmtinefndina og á að sjá til þess að hún starfi samkvæmt lögum þessum. Sjá gr. 18.

8. gr.

Gjaldkeri félagsins sér um fjárreiður þess. Hann heldur sjóðsbók um tekjur félagsins og gjöld og leggur fram reikninga þess á aðalfundi.

9. gr.

Fulltrúi fyrsta árs nema í stjórn sér um að hagsmunum fyrsta árs nema sé borgið innan Homo og hefur kosningarrétt innan stjórnar líkt og aðrir stjórnarmeðlimir.

10. gr.

Stjórn félagsins ræður málefnum þess með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þess og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum.

III. Aðalfundir og almennir félagsfundir

11. gr.

Aðalfundir og almennir félagsfundir hafa æðsta úrskurðarvald í málefnum félagsins og hafa félagsmenn þar einir atkvæðisrétt. Til aðalfundar skal stjórn félagsins boða með að minnsta kosti sjö daga fyrirvara, á vefsíðu félagsins eða með tölvupósti til allra meðlima Homo. Til almennra félagsfunda skal boðað á sama hátt en einungis með þriggja daga fyrirvara. Leyfilegt er að hafa almenna félagsfundi samhliða annarri dagskrá félagsins. Stjórn félagsins er í undantekningartilfellum heimilt að boða til félagsfundar með styttri fyrirvara.

12. gr.

Stjórn félagsins er skylt að boða til almenns félagsfundar ef 10% félagsmanna fer fram á það. Skal beiðni þess efnis undirrituð af viðkomandi félagsmönnum.

13. gr.

Halda skal aðalfund félagsins fyrir lok hverrar vorannar.

14. gr.

Dagskrá aðalfundar:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  • Skýrsla stjórnar.
  • Stjórnin leggur fram reikninga félagsins til samþykktar.
  • Lagabreytingar.
  • Kosning stjórnar félagsins.
    • Kjósa skal formann, ritara, gjaldkera og skemmtanastjóra. Kjósa skal í hvert embætti sérstaklega.
  • Kjósa tvo í skemmtinefnd á aðalfundi.
  • Kjósa skal hagsmunafulltrúa félagsins sem situr á námsbrautarfundum.
  • Önnur mál.

15. gr.

Fyrsti almenni félagsfundur haustannar skal haldinn á fyrstu þremur kennsluvikum haustannar. Fundarboðun skal fara fram samkvæmt ákvæðum 11. gr. Leyfilegt er að hafa það samhliða annarri dagskrá félagsins. Kosið skal í ritnefnd, og fulltrúa fyrsta árs nema í stjórn, auk tveggja í skemmtinefnd.

16. gr.

Ef formaður, ritari, gjaldkeri eða skemmtanastjóri segir af sér á miðju tímabili er leyfilegt að meirihluti stjórnarinnar kjósi sér nýjan fulltrúa til að gegna því embætti út tímabilið. Sama á við ef næst ekki að fylla í stöður sem fram koma í gr. 15 eða einhver segir af sér í þeim embættum. Ritari skal þó ávallt vera staðgengill formanns þar til nýr formaður hefur verið kjörinn.

17. gr.

Kosning embættismanna á aðalfundi og á almennum félagsfundi er bindandi. Framboð skulu hafa borist stjórn félagsins í upphafi þess fundar er kosning fer fram. Fari svo að framboð berist ekki í öll embætti sem kosið er í hverju sinni skal lýsa eftir framboðum á fundinum ef án árangurs fer það í hlut stjórnar að manna þær stöður, sjá gr. 16. Sé einungis einn frambjóðandi til embættis félagsins skoðast hann sjálfkjörinn í embættið. Að öðrum kosti skal fara fram kosning á milli frambjóðenda og ræður þá afl atkvæða úrslitum, skal sú kosning vera leynileg. Sá frambjóðandi sem fleiri atkvæði hlýtur í kosningunni er talinn réttkjörinn í embættið. Ef enginn frambjóðandi hlýtur meirihluta skal kosið aftur á milli þeirra tveggja er flest atkvæði hlutu.

IV. Nefndir félagsins og önnur embætti

18. gr.

Í skemmtinefnd félagsins skulu vera að minnsta kosti fjórir nemendur að skemmtanastjóra frátöldum. Skemmtinefnd skal stuðla að skemmtun og uppákomum fyrir félagsmenn Homo. Nefndin skal stuðla að árshátíð í mars eða apríl ár hvert. Undirbúningur og framkvæmd allra viðburða félagsins eru í höndum skemmtinefndar og stjórnar félagsins. Á aðalfundi er kosnir tveir og á fyrsta almenna félagsfundi haustannar skulu vera kosnir tveir til viðbótar (sjá 14. og 15.grein)

19. gr.

Í ritnefnd skulu vera að minnsta kosti þrír nemendur. Ritnefnd sér um útgáfu Homo blaðsins og skal eftir fremsta megni gefa blaðið út á hverri önn. Ritnefnd skipar ritstjóra hennar.

20. gr.

Námsbrautarfulltrúi situr í stjórn Homo sem og einnig á námsbrautarfundum og gefur skýrslu til stjórnar um það sem þar fer fram. Einnig skal námsbrautarfulltrúi sækja deildarfundi sem deildarstjóri félags- og mannsvísindadeildar boðar til. Námsbrautarfulltrúi skal taka þátt í nefndarstörfum FÓM, nemendafélagi félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands. Ef námsbrautarfulltrúi segir af sér á miðju tímabili fer það í hlut stjórnar að finna nýjan einstakling í þetta embætti. Sambærilegt gr. 16.

IV. Ýmis ákvæði

21. gr.

Vantraust á embættismenn félagsins skal borið fram skriflega og skulu minnst 10% félagsmanna undirrita það. Stjórn félagsins skal boða til félagsfundar um vantrauststillöguna innan viku frá því hún er fram borin. Til að vantrauststillaga hljóti samþykki þurfa meirihluti fundarmanna að samþykkja hana. Ef vantrauststillaga er samþykkt skal kosið á ný til embættis á sama hátt og á aðalfundi.

22. gr.

Ef ágreiningur kemur upp vegna val stjórnar á einstakling í laust embætti (Sjá gr. 16) geta félagsmenn boðað til almenna félagsfundar eins og kemur fram í gr. 12 og gr. 21.

23. gr.

Breytingar á lögum félagsins verða aðeins gerðar á aðalfundi. Þarf meirihluta atkvæða fundarins til að samþykkja tillögu um lagabreytingar.  Komi fram tillaga um að leggja félagið niður þarf öll atkvæði fundarins.

24. gr.

Óski félagsmenn eftir því að skoða bókhald félagsins þarf þá að koma formleg beiðni til stjórnar og fer það þá í hlut gjaldkera að fara yfir bókhaldið með þeim félagsmanni/félagsmönnum.

25. gr.

Komi upp ágreiningur um lög þessi skal skipuð nefnd þriggja einstaklinga sem hefur það hlutverk að skera úr um ágreiningsmál. Almennur félagsfundur skipar tvo einstaklinga í nefndina og stjórn einn.

26. gr.

Að loknum aðalfundi ár hvert skal stjórn Homo auglýsa gildandi lög félagsins og dreifa þeim svo allir félagsmenn geti nálgast þau hvort sem er í bréfformi eða rafrænu.

27. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og um leið falla úr gildi fyrri lög félagsins.

 

Samþykkt á aðalfundi 17 apríl 2015.