Kærkomin færsla!

Ný stjórn Fróða og markmið hennar

Jæja, þá hefst endurvakning á þessari síðu sem hefur legið í dvala sökum Facebook-væðingar sagnfræðinemanna. Þrátt fyrir litla virkni á þessari síðu hefur félagslíf sagnfræðinema og starf Fróða ekki legið á undanhaldi, langt því frá. Fyrrum stjórn Fróða sá til þess að sagnfræðinemar hópuðu sig saman og mættu á vísindaferðir, í skemmtiferðir, heimsóknir í fyrirtæki, tilefnispartý, próflokadjömm, árshátíð og margt, margt fleira. Viljum við, í stjórn Fróða, þakka þeim fyrir vel unnin störf og óskum þeim alls hins besta!

Fráfarandi stjórn Fróða 2014/2015. Talið frá vinstri: Baldur, Ísak, Páll, Teitur, Arna, Inga.

Fráfarandi stjórn Fróða 2014/2015. Talið frá vinstri: Baldur, Ísak, Páll, Teitur, Arna, Inga.

Stjórn Fróða 2015/2016. Talið frá vinstri: Diljá, Bjartur, Daníel, Þórarinn, Elísa, Baldur.

Ný stjórn Fróða 2015/2016.
Talið frá vinstri: Diljá, Bjartur, Daníel, Þórarinn, Elísa, Baldur.

Ný stjórn Fróða var kosin í apríl og samanstendur af 6 brakandi ferskum stjórnarmeðlimum sem hafa það að markmiði að skilja sagnfræðinema skólaárið 2015/2016 eftir í félagslegri alsælu. Síðan stjórnin var kosin hafa verið haldnir tveir stjórnarfundir (seinni fundurinn verður fljótlega birtur hér á síðunni), Snapchat Fróða var stofnað, próflokadjamm var haldið þar sem uppistandarar tróðu upp og like-síða Fróða verður virkari með hverri vikunni.

fróðisnapchat

Fróði er kominn á Snapchat, en aðgangurinn er í sumarfríi og verður endurvakinn í haust.

 

Í júní var síðan kynning á námskeiðum sagnfræðideildarinnar fyrir næsta vetur sem er nýmæli en væntanlega sú fyrsta af mörgum í komandi framtíð. Þá mættu kennarar í Árnagarð og upplýstu nemendur sem hafa hug á sagnfræðinámi um hvað þeir ætluðu að kenna í vetur. Fulltrúi Fróða sat þann fund og punktaði niður helstu atriðin fyrir þá sem ekki gátu verið viðstaddir. Punktarnir eru aðgengilegir á grúppu sagnfræðinema á Facebook.

Markmið nýju stjórnarinnar helst í hendur við þessa námskeiðskynningu, en markmið hennar er að halda starfi Fróða opnu, sagnfræðinemum upplýstum og þannig verður hægt að ýta undir vilja sagnfræðinema til fjölbreyttra athafna til þess að skapa stemningu og njóta félagsskapar hvors annars . Slíkt samstarf milli sagnfræðinema og í sumum tilfellum fulltrúum og kennurum sagnfræðideildarinnar, mun aðeins glæða sagnfræðinámið lífi og vera dýrmæt kennslustund utan kennslustofunnar. Bækur hafa nefnilega ekki þann eiginleika að geta brosað.

En sem dæmi um opna stjórn og upplýsta nemendur munu allir stjórnarfundir Fróða vera aðgengilegir á veraldarvefnum (skoðað verður hvort þeir verði teknir upp, en a.m.k. munu fundarskýrslur verða birtar á síðu Fróða), opnað verður fyrir hugmyndabanka á Facebook þar sem sagnfræðinemum gefst tækifæri á að koma með hugmyndir fyrir veturinn sem verða síðan teknar fyrir á stjórnarfundi, skoðanakannanir verða settar á grúppuna til þess að kanna hvort sagnfræðinemar vilji eða geti tekið þátt í ákveðnum viðburðum á sérstökum dögum (t.d. spilakvöld, Pub Quiz, námsferðir, hittingar og þá verður val á milli t.d. þriðjudags, miðvikudags, fimmtudags eða föstudags), opnir fundir með stjórn Fróða og sagnfræðinemum og margt, margt fleira. Þess vegna treystir Fróði gífurlega á þátttöku sagnfræðinema, því án þeirra væri góðfúslegt starf Fróða til einskis. Þið eruð Fróði.

En nú er komið að öðru.

 

Heimsókn finnskra sagnfræðinema:

Miðvikudaginn 20. maí tóku stjórnarmeðlimir Fróða á móti finnskum sagnfræðinemum frá háskólanum í Helsinki. Anna Agnarsdóttir og Sverrir Jakobsson, prófessorar við sagnfræði og kennarar við Háskóla Íslands voru einnig í móttökunefnd og hafði Anna bakað (eða keypt) köku sem virtist duga fyrir um 5 manns. Finnarnir voru hinsvegar 19 talsins, okkur til mikillar furðu, og var Anna fljót að forða kökunni til að koma í veg fyrir múgæsing.

Í hópnum var Marie Vatjus talsmaður hópsins en margir aðrir voru mjög virkir í umræðum og synd að aðeins klukkutími var bókaður fyrir þennan forvitnilega hóp sem lagði leið sína frá Helsinki til þess að fræðast um Ísland og sögu þess.

Finnsku sagnfræðinemarnir

Finnska föruneytið

Fundurinn byrjaði á því að Sverrir sagði lítillega frá Háskóla Íslands, hvað hann sé gamall (eða öllu heldur ungur) og að sagnfræðin sem slík hafi ekki verið kennd sérstaklega sem stök fræðigrein fyrr en eftir árið 1970, eða svo.

Sverrir sagði að í sagnfræðikennslunni væri lagt áherslu á að sagnfræðinemar læsu texta og ynnu úr þeim í formi ritgerða, framsagna eða tækju þátt í umræðutímum um lesefnið. Í samtali við Finnana seinna sögðu þeir námið í Helsinki mjög einsleitt þar sem fyrirlestrar væru eina form kennslu. Umræðutímar voru framandi fyrir þeim þar sem örlítið fleiri nemendur sitja kennslustundirnar í Helsinki en í Reykjavík og því ekki tími eða rúm fyrir slíkt form kennslu. Eða vilji kennara.

Sverrir Jakobsson

Ein góð af Sverri Jakobssyni.

Það sem Finnunum fannst einnig áhugavert var sú staðreynd að nær allir prófessorarnir við sagnfræði í Háskóla Ísland, ef ekki bara allir, höfðu farið erlendis í framhaldsnám, hvort sem það var til þess að klára masters- eða doktorsgráðu. Til samanburðar hafði aðeins einn prófessor við sagnfræði í Háskólanum í Helsinki numið sagnfræði í öðrum löndum en Svíþjóð og Finnlandi. Allir hinir hefðu tekið master- eða doktorspróf í Finnlandi/Svíþjóð. Þeim fannst þetta styrkja stöðu sagnfræðikennslu á Íslandi og vera gott fordæmi fyrir aðra fræðimenn og prófessora víðsvegar um heiminn.

Til þess að ljúka almennri umræðu um þennan fund voru atvinnumöguleikar sagnfræðinga hér á landi Finnunum hugleiknir. Marie Vatjus sagði gríðarlega samkeppni í Finnlandi um stöður og störf sem tengdust sagnfræði og aðeins þeir sem nenntu að vera á sama stað í mörg ár fengju þessar stöður. Tónninn var hinsvegar annar hjá Sverri og Önnu sem voru sammála um það að nóg væri um störf tengd sagnfræðinni á Íslandi og í raun mannekla hvað fræðigreinina varðaði. Svo bentu þau á að sagnfræðingar væru alls ekki bundnir við störf tengd sagnfræðinni heldur væri þessi menntun gagnleg til ýmissa starfa, hvort sem það væri að vera fjölmiðlamaður, upplýsingaráðgjafi, stjórnandi í fyrirtækjum, rithöfundur, stjórnmálamaður, atvinnurekandi og margt fleira.

Anna minntist á að fyrrum sagnfræðinemi sem hún kenndi, afgreiddi hana í IKEA. Þessi sami útskrifaði sagnfræðingur sá síðan til þess að eitthvert húsgagnið sem var uppselt hafi verið sérpantað fyrir hana til Íslands. „So yes, historian students do get jobs in Iceland”, sagði Anna síðan og uppskar hlátrasköll.

Ein gömul af Önnu Agnarsdóttur.

Ein söguleg af Önnu Agnarsdóttur.

Eftir 40 mínútna fund kvöddu Sverrir og Anna okkur og tók stjórn Fróða við fundinum og svaraði spurningum sem sneru að félagslífi sagnfræðinema og hlutverki og skipulagi Fróða. Í Helsinki er starf Kronos, nemendafélags sagnfræðinema í Helsinki, mikið flóknara og skipulagðara þar sem um 500 sagnfræðinemar eru skráðir í nemendafélagið, þar af um 100 virkir. Sagnfræðinemar í Helsinki eru, að sögn Finnanna, vinsælustu nemarnir í augum atvinnurekenda (bareigenda) og frægir í skólanum fyrir skemmtilega viðburði. Það vakti ekki forundran stjórnar Fróða, enda hafa sagnfræðinemar verið langsamlega þekktir fyrir húmor, umburðarlyndi, léttúð og hlýju, svona eftir árið 1990. (Fullyrðing án rökstuðnings og því ómarktæk. Eða hvað?)

Eftir fundinn gafst tími fyrir okkur að ganga um háskólasvæðið og spjalla um allt milli himins og jarðar hvað varðar námið á Íslandi og í Finnlandi. Staðan er nokkuð svipuð varðandi leiguverð sem er himinhátt, en Finnland tekur hinsvegar sænsku leiðina og kemur gífurlega til móts við námsmenn varðandi bækur, skólagjöld og annan kostnað. Finnunum fannst sérstakt að háskólinn ætti bíó og notaði það undir kennslustundir yfir daginn, þeim fannst það svolítið sjoppulegt og ekki hæfa virtum háskóla að standa undir slíkri starfsemi.

Að lokum þurftum við því miður að kveðja þennan skemmtilega hóp sem var ótrúlega fjölbreyttur og hafði marga sterka persónuleika að geyma. Meðal annars var einn þeirra fulltrúi Pírata í Helsinki og svo var annar sem hafði gefið út vel útlítandi sagnfræðirit en hafði hinsvegar meiri áhuga á að drekka sig blindfullan á þeim bar þar sem spiluð væri metaltónlist. Til að hafa það á hreinu benti ég honum á Dillon.

Anna Agnarsdóttir sagði að síðan hún hóf störf við Háskóla Íslands, sem er örugglega langt síðan, hafa engir sagnfræðinemar erlendis frá boðað fund eða samkundu með einhverjum hætti til þess að nálgast íslenska sagnfræðinema. Þetta væri því kærkomið nýmæli sem mætti skoða betur í sambandi við bætt tengsl sem gæti endað með utanlandsferð. Þáðu stjórnarmeðlimir Fróða gjöf frá Kronos, en það voru fatabætur sem seldar eru í Helsinki til styrktar Kronos.

Fatabætur - Kronos

Fatabætur Kronos. Þær eru saumaðar á föt sagnfræðinema sem klæðast þeim á viðburðum Kronos.

 

Ef einhver vafi er hjá ykkur eftir lestur þessarar færslu hvort framhaldsnám í sagnfræði til masters- eða doktorsnáms sé kennd við Háskóla Íslands, þá mega þeir sömu anda létta þar sem slíkt er í boði. Allir sem hafa lesið þessa færslu eru hvattir til þess að fara út í nám eða stunda einhverjar rannsóknir erlendis einhvern tímann á lífsskeiðinu til þess að víkka sjóndeildarhringinn og þar með tileinka sér aukna víðsýni. Til þess að einstaklingur verði áhugaverður þarf hann að sýna áhuga.

Þetta er gott í bili. Endilega hafið samband ef það eru spurningar.

Ekki gleyma að líka við Fróða og fá inngöngu í hóp sagnfræðinema á Facebook

 

Kveðja,

Daníel Daníelsson
Stjórnarmeðlimur (formaður) Fróða

Fróða Logo

Email Fróða: frodiform@hi.is
Emailið mitt: dgd2hi.is
s: 6942748