Eldri lög samþykkt á stofnfundi 1. desember 2009

Lög félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

1. gr. Félagið heitir „Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands.“ Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunamálum doktorsnema í Háskóla Íslands og nýdoktora.

3. gr. Félagar eru doktorsnemar við Háskóla Íslands og útskrifaðir doktorar fyrstu þrjú árin eftir útskrift nema þeir óski eftir að vera undanskildir.

4. gr. Allir félagsmenn hafa rétt til setu á fundum og hafa þar atkvæðis- og tillögurétt. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

5. gr. Aðalfundur skal haldinn í janúar ár hvert og skal boðað til hans með dagskrá með 2 vikna fyrirvara. Á aðalfundi skulu reikningar félagsins fyrir síðasta ár lagðir fyrir til samþykktar. Reikningsárið er frá 1. janúar til 31. desember. Aðalfundur kýs stjórn fyrir næsta starfsár, tvo skoðunarmenn reikninga fyrir sama tímabil og fulltrúa félagsins í ráð og nefndir. Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi.

6. gr. Stjórn félagsins skipa fimm aðalmenn og tveir varamenn, kosnir á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Hlutverk stjórnar er að koma fram fyrir hönd félagsins, boða til funda þegar ástæða þykir til og hafa frumkvæði að því að 2. gr. sé framfylgt. Leitast skal við að fulltrúar í stjórn félagsins komi frá öllum sviðum.

7. gr. Stjórn er skylt að boða til tveggja félagsfunda á ári hið minnsta.

8. gr. Engin félagsgjöld eru innheimt af félagsmönnum.

9.gr. Stjórn félagsins er ábyrg fyrir fjárreiðum félagsins og skuldbindingum þess. Komi til slita félagsins renna eignir þess til Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Félagsmenn eiga ekki tilkall til eigna félagsins. Ákvörðun um slit félagsins skal tekin á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum félagsfundi og ræður einfaldur meirihluti.

10. gr. Heimilt er að breyta lögum þessum á aðalfundi. Lagabreytingatillögur þurfa að berast öllum félagsmönnum viku fyrir auglýstan aðalfund. 2/3 hluta atkvæða þarf til að breyta lögum á aðalfundi. Lög þessi taka gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau.