Aðalfundur Fedon þriðjudaginn 20. mars

Aðalfundur Fedon verður haldinn þriðjudaginn 20. mars kl. 16.00 í Árnagarði, stofu 101.

Dagskrá:

 1. Venjuleg aðalfundarstörf
  1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  2. Ársreikningur liðins reikningsárs lagður til samþykktar.
 2. Kosning stjórnar.
 3. Breyting á lögum Fedon (breytingartillögur verða auglýstar tímanlega).
 4. Önnur mál.

Að aðalfundi loknum verður boðið upp á veitingar. Við hvetjum alla doktorsnema og nýdoktora til þess að mæta og dreifa fundaboði sem víðast.

Facebook-viðburður: https://www.facebook.com/events/915668848593407/.

English

The Fedon Annual General Meeting will be held on March 20th at 16:00 in Árnagarður, room 101. Please share this with your fellow PhD candidates and Post-docs. All are welcomed.

Birt í Fundarboð

Áskorun um að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema

Áskorun um að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema

Stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands skorar á rektor að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema sem fyrst, í seinasta lagi í ársbyrjun 2019.

Embætti umboðsmanns doktorsnema er víða að finna þar sem doktorsnám hefur tekið á sig skýra mynd. Á hinum Norðurlöndunum er embættið að finna í flestum háskólum en mismunandi er þó hvar það er staðsett, ýmist innan stjórnsýslu og/eða nemendafélaga. Sem dæmi má nefna að í háskólanum í Lundi er það á vegum doktorsnemafélags skólans en í Stokkhólmsháskóla er embættið hluti af stjórnsýslunni. Í sumum tilfellum er prófessor í embætti umboðsmanns eins og í háskólanum í Heidelberg og í Maryland-háskóla. Hlutverk þessara embætta er að veita doktorsnemum aðstoð við stór og smá málefni sem og að gegna hlutverki miðlara þegar upp koma samskiptaörðugleikar eða deilumál milli doktorsnema og leiðbeinanda.

Umboðsmaður doktorsnema við Háskóla Íslands

Fedon telur að mikilvægt sé að tryggja sjálfstæði embættisins gagnvart stjórnsýslu, þar með talið Miðstöð framhaldsnáms, sviðum og deildum en að jafnframt sé embættið á ábyrgð háskólans en ekki nemendafélaga. Fedon stingur upp á að embættið heyri beint undir rektorsskrifstofu á sama hátt og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands gerir. Mikilvægt er að í reglum um embættið verði skýrt kveðið á um sjálfstæði embættisins. Þó að embættið hafi ekki úrskurðarvald telur Fedon að mikilvægt sé að umboðsmaður geti, í kjölfar kvörtunar eða á eigin spýtum, sent frá sér ráðgefandi álit.

Hlutverk umboðsmanns doktorsnema

Fedon sér fyrir sér að skrifstofa umboðsmanns doktorsnema verði vettvangur fyrir doktorsnema að leita til þegar upp koma vandamál, persónuleg eða fagleg.[1] Í sumum tilvikum myndi umboðsmaður vísa nemendum áfram á annan vettvang.

Umboðsmaður gætir fyllsta trúnaðar við alla þá sem koma að máli við hann og mætti aldrei fara lengra með mál nema fyrir því lægi skýrt samþykki hlutaðkomandi. Þá telur Fedon mikilvægt að sú manneskja sem sinnir embættinu hafi sjálf doktorspróf enda hafi hún þá gengið í gegnum það ferli og þekki þau vandamál sem upp geta komið.

Hlutverk umboðsmanns doktorsnema:

 • Doktorsnemandi getur leitað til umboðsmanns með spurningar sem vakna við námið varðandi t.d. skyldur, réttindi og tækifæri.
  • Dæmi: Upplýsingar um rétt í fæðingarorlofi; upplýsingar um hvað felst í skyldum nemanda til að vera virkur þátttakendur í faglegri umræðu; upplýsingar um möguleika á sameiginlegu doktorsnámi (e. joint degree); upplýsingar um reglur um leiðbeiningu.
 • Umboðsmaður gegnir hlutverki miðlara þegar upp koma vandamál milli doktorsnema og leiðbeinanda, nefndar, námsbrautar, deildar eða sviðs.
  • Dæmi: Nemanda finnst leiðbeinandi ekki sinna sér sem skyldi; upp koma samskiptaörðugleikar við deildarforseta; aðili í doktorsnefnd er ófaglegur í samskiptum við nemanda.
 • Umboðsmaður styður við nemendur í erfiðum tilfellum á borð við veikindi eða ef nemandi verður fyrir áreitni eða einelti. Umboðsmaður getur, með leyfi nemanda, leitað til leiðbeinanda, námsbrautar, deildar eða sviðs til að uppvísa þá um málið og tryggja skilning. Einnig getur umboðsmaður vísað nemanda á sálfræðiráðgjöf innan NSHÍ eða hjá sálfræðiráðgjöf háskólanema.
  • Dæmi: Nemandi greinist með alvarlegan sjúkdóm og þarf aðstoð við að ákveða næstu skref; nemandi verður fyrir faglegu einelti af starfsmanni skóla eða samnemanda; nemandi verður fyrir áfalli í persónulegu lífi.
 • Umboðsmaður tekur við ábendingum nemanda ef námsbrautir, deildir eða svið eru ekki að sinna skyldum sínum. Unnið yrði úr slíkum ábendingum nafnlaust.
  • Dæmi: Doktorsnemi telur að svið sé ekki að tryggja gæði doktorsnáms við háskólann; doktorsnemi telur að ekki sé farið eftir reglum háskólans.

Mikilvægi embættisins og stefna Háskóla Íslands

Í stefnu HÍ fyrir árabilið 2016–2021 kemur fram að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur. Fram kemur að umgjörð doktorsnáms skuli styrkt og að stuðningur við leiðbeinendur og nemendur verði aukinn auk þess sem skýra eigi verkferla og styðja betur við framvindu doktorsnema. Fedon telur að stofnun embættis umboðsmanns doktorsnema sé mikilvægt skref í þeirri vinnu. Með embætti umboðsmanns doktorsnema yrði komið á fót óháðri miðlægri stöð sem doktorsnemar gætu leitað til með þeirri fullvissu að þeirra hagsmunir yrðu ávallt virtir og að fullum trúnaði væri heitið.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)
Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)
Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið)
Deirdre Clark (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

[1] Sjá til dæmis lýsingu á embættinu við Stokkhólmsháskóla: https://www.sus.su.se/en/phd-student-ombudsman/.

Birt í Áskoranir

Áskorun vegna nýdoktors- og doktorsstyrkja

Áskorun um að hefja aftur veitingu nýdoktorsstyrkja og fjölga doktorsstyrkjum

Í kjölfar aukinnar fjárveitingar til Háskóla Íslands/Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands skorar stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands á rektor að fjölga doktorsstyrkjum og hefja aftur veitingu nýdoktorsstyrkja.

Grundvöllur þess að doktorsnemar og nýdoktorar geti sinnt verkefnum sínum og þannig stuðlað að nýsköpun og framgangi fræðanna er aðgangur að fjármagni. Því miður er það svo að styrkir til doktorsnáms eru alltof fáir á Íslandi. Aðeins 15 doktorsnemar af þeim 73 (21%) sem sóttu um doktorsnemastyrk Rannís úthlutunarárið 2018 fengu styrk í eigin nafni. Árið 2017 fengu 29 doktorsnemar doktorsstyrki frá Háskóla Íslands af 146 umsækjendum.

Ástandið er jafnvel alvarlegra hjá nýdoktorum. Háskóli Íslands hefur ekki úthlutað nýdoktorsstyrkjum síðan 2015 og er alls kostar óljóst hvenær úthlutanir hefjast á ný. Rannsóknastöðustyrkir Rannís, sem ætlaðir eru nýdoktorum, eru fáir. Af 63 umsækjendum fyrir árið 2018 hlutu aðeins 11 styrk í eigin nafni (18%).

Í stefnu HÍ fyrir árabilið 2016–2021 kemur fram að stuðla eigi að nýliðun í rannsóknum og að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur. Fedon fagnar þeirri stefnu að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur og hvetur til þess að sú aukna fjárveiting sem skólinn hefur fengið verði að hluta til notuð til að vinna að þessu markmiði því ljóst er að núverandi ástand stuðlar síður en svo að nýliðun.

Áskorun Fedon er í þrennu lagi:

Í fyrsta lagi skorar Fedon á rektor að Háskóli Íslands auglýsi á ný nýdoktorsstyrki og jafnframt að nýdoktorsstöður verði héðan í frá auglýstar árlega fyrir allar deildir.

Í öðru lagi skorar Fedon á rektor að auka fjölda doktorsstyrkja. Of fáir nemendur fá nú styrk með þeim afleiðingum að margir flosna upp úr námi eftir að hafa helgað árum af lífi sínu rannsóknum sem skila engri formlegri viðurkenningu.

Í þriðja lagi skorar Fedon á rektor að hækka upphæð þeirra doktorsstyrkja sem veittir eru. Eins og staðan er í dag er styrkfjárhæðin langt undir þeim mörkum sem velferðarráðuneytið telur að fólk þurfi til að framfleyta sér.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:
Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)
Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)
Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið)
Deirdre Clark (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

Birt í Áskoranir

Kynning fyrir nýja doktorsnema / Introduction for new doctoral candidates

Fimmtudaginn 5. október bjóða Miðstöð framhaldsnáms og Fedon doktorsnemum, innrituðum frá og með 1. janúar 2016, til kynningardagskrár á Litla torgi, Háskólatorgi.

Tilgangur viðburðarins er að gefa doktorsnemum tækifæri á að öðlast vitneskju um þær starfseiningar skólans sem bjóða doktorsnemum upp á þjónustu og stuðning meðan á náminu stendur. Eftirtaldir aðilar munu, auk Fedon og Miðstöðvar framhaldsnáms, kynna starfsemi sína:

Náms- og starfsráðgjöf
Háskólabókasafn
Skrifstofa alþjóðasamskipta
Kennslumiðstöð
Vísinda- og nýsköpunarsvið

Einnig verður ánægjukönnun meðal doktorsnema sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun kynnt.

Fundurinn hefst kl. 15 og stendur formleg dagskrá á Litla torgi til kl. 17. Að því loknu verður boðið upp á léttar veitingar.

Fundurinn er haldinn á ensku.

Skráning á viðburðinn fer fram á Uglu og er skráningarfrestur 3. október kl. 16.00.

__________________________________________________________

The Graduate School and Fedon invite new PhD students, enrolled in the years 2016 and 2017, to an introductory meeting on October the 5th at Litla torg in Háskólatorg.

The purpose of the meeting is to introduce the several units within the University of Iceland which offer doctoral candidates services during the course of their studies. Along with The Graduate School and Fedon, the following units will introduce their services:

The University student counselling and career centre
The University library
The International office
The Centre for teaching and learning
The Division of science and innovation

Results from the Social science research institute’s satisfaction survey among Ph.D. students will also be presented.

The meeting will start at 15. When the formal programme ends at 17, participants will be offered light refreshments.

The meeting will be held in English.

Registration is on Ugla and ends on October 3 at 16.00.

Birt í Kynningarfundir

Ályktun Fedon um fjárskort í málefnum doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Ályktun Fedon um fjárskort í málefnum doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands lýsir yfir áhyggjum af miklum fjárskorti Háskóla Íslands og þeim áhrifum sem sá skortur hefur á doktorsnema og nýdoktora við skólann.

Á nýafstöðnum ársfundi Háskóla Íslands kom fram að 8–9 milljarða skorti í viðbótarfjármagn á ári til að ná sambærilegri fjármögnum og háskólar annars staðar á Norðurlöndunum búa við. Jafnframt kom fram að til að mæta brýnustu þörfinni þyrfti að setja 1,5 milljarða króna í rekstur Háskóla Íslands strax.

Rektor kynnti einnig á ársfundinum þau gleðilegu tíðindi að Háskólinn hafi komist á svokallaðan Sjanghaí-lista yfir 500 bestu háskóla heims. Þetta er þrátt fyrir að búa við langvarandi fjárskort sem hefur neikvæð áhrif á hag nemenda og velferð starfsmanna sem vinna mjög óeigingjarna vinnu við að halda uppi gæðum skólans þótt þeim sé þröngt sniðinn stakkur. Við ákvörðun á niðurskipan skóla á Sjanghaí-listanum er horft til sex meginþátta, t.a.m. fjölda vísindagreina sem birtar eru í virtum fræðitímaritum og fjölda tilvitnana í rannsóknir á vegum háskólans. Mikilvægt er að hafa í huga að hinn mikli fjöldi doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands (597 talsins árið 2016) og birtingar á rannsóknum þeirra teljast hér einnig með.

Fjárskortur skólans hefur hins vegar mikil áhrif á möguleika doktorsnema og nýdoktora til að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Grundvöllur þess að doktorsnemar og nýdoktorar geti sinnt verkefnum sínum og þannig stuðlað að auknum rannsóknum er aðgangur að fjármagni. Því miður er það svo að styrkir til doktorsnáms eru alltof fáir á Íslandi. Sé horft til úthlutunar helstu sjóða árið 2017, Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands + Eimskipasjóð og Rannsóknasjóðs Rannís (sem úthlutar einnig til rannsakanda utan HÍ), má sjá að útlitið er ekki gott. Af 60 umsóknum um doktorsnemastyrki Rannís hlutu aðeins 14 styrk (24%) en úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands + Eimskipasjóði hlutu 25 styrk af 146 umsækjendum (22%). Ljóst er að þetta er engan veginn fullnægjandi fjármagn. Fyrir úthlutunarárið 2018 bárust 77 umsóknir um doktorsnemastyrk Rannís og verði fjármagn í sjóðinn ekki aukið má gera ráð fyrir að aðeins 18% umsókna hljóti styrk.

Ástandið er jafnvel alvarlegra hjá nýdoktorum. Rannsóknasjóður Háskólans hefur ekki úthlutað nýdoktorsstyrkjum síðan 2015 og er alls kostar óljóst hvenær úthlutanir hefjast á ný. Rannsóknastöðustyrkir Rannís, sem ætlaðir eru nýdoktorum, eru fáir. Af 50 umsækjendum fyrir úthlutunarárið 2017 hlutu aðeins 14 styrk (28%). Umsóknum um rannsóknarstöðustyrki hefur einnig fjölgað milli ára en 66 umsóknir bárust fyrir úthlutunarárið 2018.

Til þess að viðhalda öflugum rannsóknaháskóla á alþjóðavísu er nauðsynlegt að tryggja fjármagn fyrir rannsóknir bæði doktorsnema og nýdoktora. Ef vilji er fyrir hendi að halda úti háskólastigi á landinu, mennta og sérhæfa fólk til ólíkra verkefna, er nauðsynlegt að bjóða upp á sterkt og vel fjármagnað doktorsnám. Til að tryggja nýliðun í háskólum og við rannsóknir er einnig nauðsynlegt að nýútskrifaðir doktorar eigi möguleika á að halda áfram rannsóknum sínum með því að boðið sé upp á nýdoktorsstöður við Háskóla Íslands og rannsóknastöðustyrki Rannís. Í nútíma háskólaumhverfi er nýdoktorsstaða orðin nær ófrávíkjanleg forsenda þess að geta fengið fasta stöðu á rannsóknarstofnunum eða við kennslu og haldi áfram sem fram horfir er hætt á að margir flosni úr rannsóknum og frá æðri menntastigum sem myndi hafa slæm áhrif á samfélagið í heild sinni.

Í ljósi alls þessa skorar Fedon á stjórnvöld að auka fjármagn til Háskóla Íslands og Rannsóknasjóðs Rannís og að hugað verði sérstaklega að þörfum doktorsnema og nýdoktora við þá vinnu. Framtíð Háskóla Íslands býr í doktorsnemum og nýdoktorum og ef viðhalda á þeim góða árangri sem áunnist hefur er nauðsynlegt að búa vel að þessum hópi.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:

Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)

Guðrún Sif Friðriksdóttir (Félagsvísindasvið)

Deirdre Clark (Verkfræði- og Náttúruvísindasvið)

Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

Teresa Dröfn Njarðvík (Hugvísindasvið)

Birt í Uncategorized

Aðalfundur FEDON, ný stjórn, og ályktanir fundarins

Aðalfundur FEDON fór fram í gær, 29. maí 2017.

Fráfarandi stjórn gerði grein fyrir starfi félagsins á liðnu ári og var skýrsla stjórnar samþykkt. Gjaldkeri gerði grein fyrir fjárhag félagsins og var sú skýrla einnig samþykkt.

Lagðar voru þrjár ályktanir fyrir fundinn og voru þær allar samþykktar, sjá efni þeirra hér fyrir neðan. Ályktanir þessar eru afraksturs vinnu nefndar um endurskoðun á lögum félagsins. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja ekki til breytingar á lögum félagsins að svo komnu máli en þess í stað leggja til við nýja stjórn félagsins að huga sérstaklega að samvinnu félagsins við Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ), Landssamband Íslenskra Stúdenta (LÍS) og huga að fjármögnun félagsins.

Að lokum var ný stjórn FEDON kosin og eru hún nú svo skipuð:

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið) Formaður

Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið) Ritari

Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið) Gjaldkeri

Teresa Dröfn Njarðvík (Hugvísindasvið) Varamaður í stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms

Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið) Fulltrúi í stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms og samfélagsmiðlafulltrúi

Rowina Werth (Hugvísindasvið)

Guðrún Sif Friðriksdóttir (Félagsvísindasvið)

Deirdre Clark (Verkfræði- og Náttúruvísindasvið)

Ályktanir ársfundar FEDON 2017:

Alyktun_1_FEDON_SHÍ_2017

Alyktun_2_FEDON_LIS_2017

Alyktun_3_FEDON_Fjarm_2017

Birt í Uncategorized

Ársfundur FEDON, mánudaginn 29. maí kl. 15:00 í Odda, stofu 202

Ársfundur FEDON verður haldinn mánudaginn 29. maí, kl. 15:00 í Odda, 2. hæð stofu 202. Allir velkomnir. Deilið með doktorsnemum og nýdoktorum.

Dagskrá:
-Venjuleg aðalfundarstörf
-Kosning stjórnar
-Tillaga um auknasamvinnu við SHÍ

FEDON Annual General Meeting will be held on May 29th at 15:00 in Oddi, second floor, room 202. Please share this with your fellow PhD candidates and Post-docs. All are welcomed.

Birt í Uncategorized

Ályktun Stúdentaráðs, um samstarf ráðsins við FEDON, Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Eftirfarandi mál var tekið fyrir á fundi SHÍ þann 23. maí 2017 og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

(Þessi póstur birtist upphaflega þann 21. maí 2017, en hefur nú verið breytt í samræmi við niðurstöðu málsins.)

See English text below.

Á L Y K T U N   S T Ú D E N T A R Á Ð S

um samstarf ráðsins við FEDON, Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) ályktar að fela formanni SHÍ að vinna að aukinni aðkomu doktorsnema að réttindabaráttu SHÍ í samstarfi við FEDON, Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands. Sú vinna skal vera með skipulögðum og formlegum hætti og afrakstur hennar liggja fyrir í febrúar 2018. SHÍ tekur undir þau sjónarmið að SHÍ eigi að vera málsvari allra stúdenta við HÍ og að áherslur í réttindabaráttu SHÍ þurfi að endurspegla aukinn fjölda framhaldsnema við skólann.

Meginn tilgangur þeirra breytinga sem hér eru kynntar er að efla hagsmunagæslu framhaldsnema við Háskóla Íslands. Stjórn FEDON telur að tímabært sé að tengja betur saman hagsmunagæslu grunnnámsnema og framhaldsnema við HÍ.

Fyrst nokkur orð um FEDON, Félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands, sem stofnað var vorið 2010. Markmið félagsins var að standa vörð um hagsmuni doktorsnema og nýdoktora gagnvart HÍ. Samkvæmt lögum félagsins er stjórn þess skipuð tveimur fulltrúum frá hverju fræðasviði háskólans. Stjórnin skiptir með sér verkum. Allir doktorsnemar og nýdoktorar við HÍ eru félagsmenn. Ársfund skal halda einu sinni á ári. Lögum félagsins er breytt á ársfundi með einföldum meirihluta. Allir félagsmenn hafa rétt á að sitja aðalfund og leggja fram tillögur á honum. Tillögur til lagabreytinga þarf að birta þremur dögum fyrir aðalfund.

FEDON skipar einn fulltrúa í stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms við HÍ. Segja má að þetta embætti sé það sem mestu máli skiptir fyrir starfsemi FEDON og réttlæti um leið tilvist þess. Ljóst er að Miðstöð framhaldsnáms við HÍ er og verður í lykilhlutverki varðandi þróun og umsjón með framhaldsnámi stúdenta við HÍ enda er hlutverk hennar að tryggja gæðakröfur í framhaldsnámi skólans. Stjórnin vinnur nú að endurskoðun á þeim lögum og reglum sem gilda um námið auk þess sem stjórnin fer yfir álitamál sem upp koma t.d. á milli nemenda og leiðbeinenda.

Það er mat núverandi stjórnar FEDON að nauðsynlegt sé að styrkja stöðu þess svo tryggja megi vöxt og viðgang þess samhliða viðgangi og vexti framhaldsnáms við HÍ. Félagið er frekar einangrað og má í því sambandi benda á að lítil samskipti eru á milli þess og Stúdentaráðs HÍ sem þó er ætlað það hlutverk að vera æðsti fulltrúi nemenda innan HÍ (I. liður 2. grein laga SHÍ). Raunar er erfitt að sjá þess stað að hagsmunir framhaldsnema hafi verið hluti af starfsemi SHÍ hingað til nema að litlu leyti.

Það er ekki markmið þessarar greinargerðar að gagnrýna núverandi stöðu hagsmunagæslu stúdenta við HÍ, né þá menningu sem þróast hefur í Stúdentaráði frá stofun þess árið 1920. Hér skal frekar leggja áherslu á það að horfa til framtíðar.

Staðreyndin er sú að skipulagt og almennt framhaldsnám við HÍ er tiltölulega nýtilkomið í hundrað ára sögu skólans og það er okkar skoðun að hagsmunagæsla framhaldsnema hafi ekki fylgt þeirri þróun nægjanlega vel. Stjórn FEDON vill bæta og efla þessa hagsmunagæslu.

Nú kann einhver að segja að hagsmunir framhaldsnema séu ekki þeir sömu og hagsmunir grunnnámsnema og að mikill aldurs- og aðstöðu munur sé á milli þessara hópa. Það er að vissu leiti rétt en þessir hópar eiga líka mikið sameiginlegt. Þeir stunda nám við sama skóla og eiga í samskiptum við sömu stofnanir háskólans auk þess sem æ fleiri grunnnámsnemar kjósa að fara beint í framhaldsnám að grunnnámi loknu.

Meðalaldur doktorsnema er enn nokkuð hár á Íslandi samanborið við önnur ríki í Evrópu en sé rýnt í tölurnar sést að hann fer lækkandi. Ef fram fer sem horfir munu doktorsnemar og grunnnámsnemar færast nær hvor öðrum í aldri á næstu árum auk þess sem gera má ráð fyrir því að algengara verði að þeir sem á annað borð ætla í doktorsnám muni gera það strax að loknu grunnnámi. Uppsöfnuð þörf eldri kynslóða til að bæta við sig doktorsnámi mun með tíð og tíma jafnast út. Því er enn ríkari ástæða til þess að horfa til framtíðar og byggja upp kerfi sem hæfir þeim tíma sem framundan er í stað þess að dvelja um of við fortíðina.

Stjórn FEDON leggur til að teknar verði upp formlegar viðræður á milli FEDON og SHÍ um aukna samvinnu félaganna með það að markmiði að fulltrúa doktorsnema verði tryggt fast sæti í Stúdentaráði. Stjórn FEDON leggur einnig til að kannað verði hvort mögulegt sé að kjósa hluta stjórnar FEDON beinni kosningu samhliða kosningum til Stúdentaráðs með rafrænu kosningakerfi Reiknistofunun HÍ.

English version

This motion will be put for SHÍ on 23. May 2017.

A resolution by the Student Council of the University of Iceland, on cooperation with FEDON, the Association of PhD students and post-doc students at the University of Iceland (UI).

The Student Council (SHÍ) resolves to entrust the Chairman of SHÍ to work on further involvement of PhD students in the operation of SHÍ in cooperation with FEDON, the Association of PhD students and post-doc students at the University of Iceland. This work shall be done in an organized and formal manner, yielding a conclusion in February 2018. SHÍ supports the motion that SHÍ should be the representative of all students at the UI and that the focus on the campaign for rights at SHÍ must reflect increased number of graduate students at the university.

The main purpose of the changes presented here is to protect the interests of graduate students at the University of Iceland. The board of FEDON believes that it is time to link more closely the interests of undergraduate and graduate students.

First, a few words about FEDON, the Association of PhD students and post-doc. students at the University of Iceland (UI). FEDON was established in the Spring of 2010. The goal of the association was to protect the interests of PhD students and post doc. students.  According to the association’s by-laws, the Board of Directors is composed of two representatives from each of the Schools of ​​the University and are responsible for activities that address students’ needs. All PhD students and post doc. students enrolled at the university are members of FEDON by default. Annual General Meetings should be held once a year. The by-laws of the association can be changed at an annual meeting with a simple majority. All members have the right to attend the Annual General Meeting and put forward proposals. Proposals for legislative changes must be published three days before the Annual General Meeting.

FEDON appoints one member of the Board to sit on the Graduate School committee of the University of Iceland. The Graduate School is extremely important for FEDON’s activities and ensuring students’ rights. It is clear that the Graduate School does and will play a key role in the development and management of the university’s graduate studies by  addressing quality assurance in the university’s postgraduate studies. The Graduate School committee is currently reviewing the laws and regulations governing the doctoral program, for example, issues that may arise between students and supervisors.

FEDON’s current board is of the opinion that it is necessary to strengthen its position to ensure the continuation and growth of postgraduate studies at the University of Iceland in a way that ensures student rights and wellbeing are addressed. At the moment FEDON is rather isolated and there is little communication with the Student Council, which is intended to be the highest representative of students within the University of Iceland (see section 2 of the Student Council Act). Indeed, the interests of graduate students have not visibly been part of SHÍ activities.

FEDON in now way intends to criticise the current status of doctoral students or the role of SHÍ since its establishment in 1920. Rather, this statement seeks to propose changes that could strengthen the role of both FEDON and SHÍ in terms of responding to student interests.

Formal graduate studies at the University of Iceland are relatively new in the context of its hundred-year history. In our view, meeting the interests of graduate students has not kept up with other developments. Therefore, FEDON’s role is to address these shortcomings.

It could be argued that the interests of graduate students are not the same as the interests of undergraduate students. There are of course differences but there also commonalities. They study at the same school and are governed by the same institutional system and structures. Undergraduate students also choose to continue their studies and move into graduate programs, therefore creating an important link between the experiences of both levels.

The average age of doctoral students is still quite high in Iceland compared with other countries in Europe, but the figures show that it is falling.  At the current rate, the gap between the age of doctoral students and undergraduate students will decrease, and it may be assumed that those who are planning a doctoral degree in the future will be more likely to do so immediately after graduation. Therefore, there is even greater reason to address future trends by working collaboratively to build a system of student representation that responds to these needs.

The board of FEDON therefore proposes that there be formal negotiations between FEDON and SHÍ on the enhanced cooperation between the two, with the aim of ensuring that a representative of PhD students is secured a permanent seat on the Student Council. The board of FEDON also proposes to examine whether it is possible to elect FEDON board members through direct elections parallel with election to the Student Council through the university’s electronic election system.

Birt í Uncategorized

FEDON á Facebook

Kæru doktorsnemar og nýdoktorar. Félagið ykkar, FEDON, er líka með Facebook síðu. Endilega látið ykkur líka við hana og dreifið henni um allar koppa grundir, tjáið ykkur og takið þátt.

Það er vissulega rétt að FEDON hefur ekki verið mjög virkt félag, en það er bara ein leið að breyta því: gera eitthvað sjálfur.

 

Dear PhD students and post-docs. Your association, FEDON, is also on Facebook. Some of the suff written there should be in English, if not ask for a translation. Please like the page, share it with your friends, express yourself and participate.

It is true, FEDON has not been a very active association, but there is only one way to change that: do it yourself.

Birt í Uncategorized

Frumvarp menntamálaráðherra um námslán og námsstyrki (LÍN)

Menntamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um námslán og námsstyrki, eins og það heitir. Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn þriðjudaginn 24. maí 2016, sjá hér. Frumvarpið má finna hér á vef Alþingis og hér á PDF formi. Frumvarpið var lagt fram mánudaginn 30. maí. Hér má finna frétt mbl um frumvarpið og hér viðtal við stjórnarmann FEDON um áhrif þess á doktorsnema.

Eins og sjá má er frumvarpið einar 66 síður og hefur stjórn FEDON ekki enn náð að kynna sér efni þess til hlítar. FEDON mun taka þátt í vinnu annara samtaka námsmanna við að greina áhrif frumvarpsins.

FEDON skorar á doktorsnema að kynna sér vel áhrif frumvarpsins á þeirra hagi. Einnig skorar FEDON á doktorsnema að tjá skoðanir sínar og taka þátt í starfi FEDON.

lin

Birt í LÍN