Umsögn frá FEDON – Félagi doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands við frumvarp menntamálaráðherra um Stuðningssjóð Íslenskra námsmanna.

Stjórn FEDON – Félags doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands tekur undir umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands í meginatriðum. Það er jákvætt skref að nemendur eigi kost á því að fá hluta námslána felldan niður og gerir það nám á háskólastigi almennt bærilegra. Þá kann það að koma þeim doktorsnemum til góða sem fjármagna doktorsnám sitt með námslánum. FEDON vill þó koma að athugasemdum við frumvarp menntamálaráðherra um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna, sem varða doktorsnema.

Flókin staða doktorsnema.
FEDON beitir sér fyrir því að doktorsnemar séu allir fjármagnaðir með doktorslaunum eða sambærilegum rannsóknarstyrkjum. Hins vegar er raunveruleiki doktorsnema við Háskóla Íslands allt annar. Samkvæmt könnun sem FEDON gerði á meðal doktorsnema, og kynnt verður á komandi vetri, má nefna að rúmlega 25% doktorsnema hafa aldrei hlotið styrk. Önnur 23% hafa hlotið styrk sem nemur minna en þremur árum eða þeim tíma sem gert er ráð fyrir að doktorsnám klárist. Gróflega er áætlað að um 15-20% doktorsnema reiði sig á námslán á einhverjum tímapunkti á meðan doktorsnámi stendur.
Þetta er eitt dæmið um flókna stöðu doktorsnema. Til að bæta ofan á það eru rannsóknarstyrkir misháir og staða doktorsrannsakenda ólík eftir því hvaðan rannsóknarstyrkir koma, en gera má þó ráð fyrir því að hluti þeirra sem fjármagnaðir eru með rannsóknarstyrk hafi áður þegið námslán á meðan doktorsnámi stendur. Þá ber að nefna að flestir koma inn í doktorsnám með námslán á bakinu.

Ekki er gerður greinamunur á högum doktorsnema annars vegar og grunn- og meistaranema hins vegar en hagsmunir doktorsnema er gerólíkur síðastnefndu hópum. Almennt eru hagir doktorsnema mjög ólíkir innbyrðis og því verður ávallt að meðhöndla tilfelli hvers og eins sérstaklega. Rannsóknar- og starfsumhverfi doktorsrannsakenda er almennt mjög flókin en doktorsrannsakendur geta haft bæði stöðu nemanda og starfsmanns Háskóla Íslands svo dæmi sé tekið. Lengi vel hafa doktornemar gleymst þegar kemur að málefnum sem varða háskólanám og rannsóknarstarf á Íslandi og verið týndur hópur á milli akademískra starfsmanna og nemenda. Frumvarp þetta endurspeglar þá stöðu að vissu leyti.

Frumvarpið eykur fjárhagslega óvissu doktorsnema.
Doktorsnemar sem hlotið hafa styrk hafa oftar en ekki þurft að sækja um rannsóknarstyrk oftar en einu sinni og oftar en tvisvar áður en að fá loksins úthlutað. Mikil vinna fer í það eitt að sækja um styrki, sem tefur framgang doktorsnáms. Að auki er námsleið doktorsnáms enn tiltölulega ómótuð innan margra deilda háskólans og lítil reynsla er af doktorsnámi á Íslandi. Loks má nefna að margir doktorsnemar kenna stundarkennslu sem gefur lítið í höndina en krefst mikils tíma og orku. Af því leiðir ljúka sárafáir doktorsnámi á tilsettum tíma. Í ljósi alls þessa skýtur skökku við setja inn tímamörk á námstíma doktorsrannsakenda og það er með öllu óraunhæft að miða við tvö ár frá lok ætlaðs námstíma (sbr. 15. gr, 4tl.).

Hvergi er tekið er tekið tillit til þess að lok doktorsnáms er heilmikið ferli þar sem geta liðið margir mánuðir á milli þess að doktorsritgerð er skilað og fram að því að hún er varin. Þannig myndast ákveðið bil á milli doktorsnáms og framtíðarstarfs sem erfitt er að brúa. Mörg þeirra sem verja doktorsritgerð halda áfram á vettvangi akademíunnar og þá tekur við umsókn um styrk fyrir nýdoktorsstöðu.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að lánsþegi hefji greiðslur ári eftir að viðkomandi hætti að þiggja lán. (sbr 20.gr.) Þessu má fresta í allt að sex ár en í tilfelli doktorsrannsakenda getur það þýtt að doktorsrannsakandi geti neyðst til að greiða af námslánum á meðan viðkomandi framfleyti sér með rannsóknarstyrk (á sérstaklega við deildir þar sem doktorsnám er 240 ECTS einingar). Það gæti skapað fjárhagsleg vandræði fyrir doktorsrannsakanda þar sem rannsóknarstyrkir eru almennt mjög lágir en dæmi eru um að doktorsnemar haldi til útlanda að vinna að rannsókn sinni. Breytilegir vextir, líkt og boðað er í frumvarpinu, geta skapað alvarleg vandamál fyrir doktorsrannsakendur þar sem vaxtagreiðslur eru líklegar til þess að hækka hraðar heldur en rannsóknarstyrkir sem geta staðið í stað árum saman á meðan verð hækkar stöðugt.Setja þarf inn sérstakt undanþáguákvæði fyrir doktorsnema til að gefa þeim kost til að bíða þar til að doktorsritgerð hefur verið varin.

Niðurlag.
Almennt lítur FEDON svo á að námslán séu tímabundin úrræði fyrir doktorsnema á meðan fjármagn úr rannsóknarsjóðum er ekki fullnægjandi. Miðað við núverandi ástand er ljóst að einhverjir doktorsnemar munu áfram þurfa á námslánum að halda. Frumvarpið gerir hins vegar engan greinarmun á doktorsnemum og námsmönnum í grunnnámi og á meistarastigi. Tryggja verður að námslán verði ekki að bjarnargreiða fyrir þá sem þurfa að nýta sér þau til að fjármagna doktorsnám með námslánum. Núverandi frumvarp skapar töluverða óvissu fyrir doktorsnema sem lenda í þeirri stöðu að taka námslán, en einnig fyrir þá sem koma inn í doktorsnám með námslán á bakinu.

Fyrir hönd stjórnar FEDON,
Björn Reynir Halldórsson, formaður.

Þessi færsla var birt undir LÍN. Bókamerkja beinan tengil.