Yfirlýsing nemendafélaga vegna niðurskurðar til Rannsóknasjóðs

Undirrituð lýsa yfir alvarlegum áhyggjum af fyrirhuguðum 147 milljóna króna niðurskurði til Rannsóknasjóðs í fjárlögum 2019. Í stóra samhengi fjárlaga hljómar þetta kannski ekki sem mikil fjárhæð en fyrir þá sem reiða sig á sjóðinn er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða. Sé talan sett í samhengi við árslaun þá kemur í ljós að með þessari fjárhæð væri hægt að fjármagna tæp þrjátíu árslaun doktorsnema eða tuttugu og ein árslaun nýdoktora.[1] Þetta er því mikið högg fyrir íslenskt fræðasamfélag sem reiðir sig í stórum stíl á þennan sjóð. Sérstaklega höfum við undirrituð áhyggjur af stöðu doktorsnema og nýrannsakenda verði af þessum niðurskurði en sá hópur byggir afkomu sína nær algjörlega á úthlutunum úr samkeppnissjóðum. Á seinustu árum hefur árangurshlutfall úr Rannsóknasjóði lækkað verulega, úr 29,6 prósentum árið 2015 í 18,4 prósent í ár, jafnvel þó að ekki hafi verið skorið niður til sjóðsins að ráði.[2] Verði af fyrirhuguðum niðurskurði er ljóst að árangurshlutfallið mun lækka verulega í úthlutun ársins 2019.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 segir:

Fjármögnun doktorsnema er ótrygg og nýliðun akademískra starfsmanna víða ófullnægjandi. Þetta skapar hættu á að sú nýja þekking sem gjarnan fylgir ungum vísindamönnum skili sér illa inn í háskólana og að það dragi úr tengslum við erlent fræðasamfélag.

Undir þessi orð ríkisstjórnar taka undirrituð. Við teljum ljóst að fyrirhugaður niðurskurður muni hafa gríðarleg áhrif á doktorsnám í landinu þar sem brottfall mun að öllum líkindum aukast og nýliðun minnka. Möguleikar nýrannsakenda munu að sama skapi snarminnka sem mun valda atgervisflótta og veikja vísindarannsóknir og háskólana til langframa. Við skorum því á þingmenn að leiðrétta framlög til menntamála svo að unnt sé að veita nægileg framlög til rannsókna og vísinda við háskóla og fræðastofnanir á Íslandi.

Undir þessa yfirlýsingu rita:
Fedon – félag doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands
Stúdentaráð Háskóla Íslands
LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta
SÍNE – Samband íslenskra námsmanna erlendis
RUPA – félag doktorsnema við Háskólann í Reykjavík
Arkímedes – félag doktorsnema við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands
DNR/HVS – doktorsnemaráð Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
Félag doktorsnema á Menntavísindasviði Háskóla Íslands
Hugdok – félag doktorsnema og nýrannsakenda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands
Seigla: Félag doktorsnema á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands
Nemendafélag Háskólans á Bifröst
Stúdentafélag Háskólans á Akureyri
Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík

[1] Forsendur miða við einstaklingsstyrki.

[2] Byggt á skýrslum Rannís um úthlutanir frá árunum 2015–2018. Skýrslurnar eru aðgengilegar hér: https://www.rannis.is/sjodir/rannsoknir/rannsoknasjodur/tolfraedi-rannsoknasjods/

Þessi færsla var birt undir Áskoranir. Bókamerkja beinan tengil.