Ályktun vegna úthlutunarreglna LÍN fyrir 2018-2019

Ályktun Fedon – Félags doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands vegna nýrra úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2018–2019.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2018–2019 sem kynntar voru í síðustu viku er tekið mikilvægt skref í átt að kjarabótum námsmanna sem reiða sig á LÍN-lán með hækkun framfærslugrunns námsmanna úr 92% í 96%. Fedon telur þó að menntamálaráðherra hefði átt að taka skrefið til fulls enda ótækt að nemendur þurfi að sætta sig við að vera undir framfærsluviðmiðum. Núverandi framfærslugrunnur er alltof lágur og er það mat Fedon að hlutverki LÍN um að tryggja öllum jafnt tækifæri til náms án tillits til efnahags sé ekki sinnt sem skyldi við þessar aðstæður.

Aðrar mikilvægar breytingar í átt að jafnrétti til náms eru teknar í nýjum úthlutunarreglum þar sem nú eiga einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar eða hafa dvalarleyfi á Íslandi vegna mannúðarsjónarmiða rétt á námslánum og ber að hrósa ríkisstjórn fyrir að taka þetta veigamikla skref.

Stjórn Fedon lýsir aftur á móti yfir vonbrigðum með að hámarkslántökuréttur stendur í stað milli ára. Í úthlutunarreglum frá skólaárinu 2015–2016 var réttur til lántöku lækkaður úr 600 einingum (10 ára nám) niður í 540 einingar (9 ára nám) og fyrir skólaárið þar á eftir var hann lækkaður enn frekar, eða í 480 einingar (8 ára nám). Þessar skerðingar hafa helst bitnað á doktorsstiginu. Á Íslandi er doktorsnám ýmist þriggja ára (180 ECTS einingar) eða fjögurra ára (240 ECTS einingar) en í úthlutunarreglunum eru aðeins 60 einingar eyrnamerktar doktorsstiginu. Hafi doktorsefni hins vegar ekki áður nýtt sér 120 eininga svigrúm sitt (sem nær yfir öll námsstigin) er mögulegt að fjármagna doktorsnám til þriggja ára. Ómögulegt er að fjármagna fjögurra ára doktorsnám á lánum jafnvel þó að boðið sé upp á slíkt nám við íslenska háskóla.

Það að svigrúm sem nýta má á fyrri námsstigum sé látið brúa bil til fjármögnunar doktorsnáms er ótækt enda gerir það að verkum að þeir sem skipta um námsleið á fyrri stigum eða vegna veikinda, endurtöku á samkeppnisprófum, barneigna eða annarra aðstæðna þurfa að nýta sér svigrúmið fyrr hafa mjög skerta möguleika á að stunda doktorsnám. Þetta bitnar sérstaklega á þeim sem eignast barn á námstímanum, fötluðum og langveikum og fer því þvert gegn félagslegu jöfnunarhlutverki sjóðsins.

Eins og Fedon hefur ítrekað bent á býr doktorsstigið á Íslandi við verulegan fjárskort en þrátt fyrir fyrirheit um annað hefur doktorsstyrkjum ekki fjölgað að ráði og síður en svo fylgt gríðarlegri fjölgun doktorsnema.* Það er því sérstaklega slæmt að LÍN bjóði ekki upp á lán fyrir fullu doktorsnámi. Núverandi ástand í lána- og styrkjamálum gerir doktorsnám að fjarlægum draumi fyrir marga sem er mikill missir fyrir samfélagið enda liggur framtíð háskóla og rannsókna á Íslandi undir.

* Sjá ályktun á heimasíðu félagsins nemendafelog.hi.is/fedon/2017/08/25/alyktun-fedon-um-fjarskort-i-malefnum-doktorsnema-og-nydoktora-vid-haskola-islands/ og viðtal á Vísi í kjölfar hennar www.visir.is/g/2018180209944.

Þessi færsla var birt undir LÍN. Bókamerkja beinan tengil.