Tillaga um breytingu á lögum Fedon

Eftirfarandi tillaga að breytingu á lögum Fedon verður lögð fyrir á aðalfundi 20. mars næstkomandi.

Athugið að gildandi lög félagsins má lesa hér: https://nemendafelog.hi.is/fedon/constitution/ og lög frá stofnfundi má lesa hér: https://nemendafelog.hi.is/fedon/constitution/eldri-log/.

Lög Fedon – félags doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands

Skilgreiningar hugtaka:

 • Doktorsefni teljast allir þeir sem skráðir eru í doktorsnám við Háskóla Íslands.
 • Nýrannsakendur eru allir þeir sem hafa á síðastliðnum sjö árum lokið doktorsgráðu og eru ráðnir í tímabundna stöðu við háskólann eða tengdar stofnanir (til dæmis nýdoktorsstöðu, rannsóknarstöðu) eða eru með öðru móti tengdir háskólanum (til dæmis stundakennarar).

1. grein. Nafn félagsins er Fedon – félag doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands eða Fedon – The University of Iceland’s Association of Doctoral Candidates and Early-Career Researchers á ensku. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein. Markmið félagsins er að vinna að hagsmunamálum doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands.

3. grein. Kosningarétt, kjörgengi og tillögurétt hafa allir þeir sem falla undir ofangreindar skilgreiningar á doktorsefnum og nýrannsakendum við Háskóla Íslands. Ákvarðanir eru teknar með meirihluta atkvæða.

4. grein. Aðalfundur félagsins skal haldinn ekki síðar en í maí ár hvert. Fjárhagsár félagsins fylgir almanaksárinu. Boði stjórn félagsins ekki aðalfundar geta félagsmenn kallað til aðalfundar með undirskrift 30 meðlima.

 • Til aðalfundar skal stjórnin boða með sannanlegum hætti með minnst 7 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá.
 • Vilji félagi fá mál tekið fyrir til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal hann greina stjórn frá því skriflega með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði.
 • Breytingar á lögum félagsins er aðeins hægt að samþykkja á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða. Allar breytingartillögur skulu kynntar með minnst 7 daga fyrirvara.
 • Á dagskrá aðalfundar skal vera:
  1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  2. Ársreikningur liðins reikningsárs lagður til samþykktar.
  3. Kosningar: (a) stjórn, (b) tveir skoðunarmenn reikninga.
  4. Mál sem tiltekin eru í fundarboði.
  5. Önnur mál.

6. grein. Mælst er til þess að í stjórn félagsins sitji 10 aðilar og að hún sé samsett af 2 fulltrúum frá hverju sviði skólans (Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið, Verkfræði- og náttúruvísindasvið); einum aðalmanni og einum varamanni. Þá skal leitast eftir því að hafa hlutfall doktorefna og nýrannsakanda sem jafnast sem og kynjahlutfall. Sé ekki unnt að uppfylla þessi tilmæli vegna skorts á frambjóðendum má fylla stjórnina með öðrum hætti. Aðeins meðlimir félagsins geta setið í stjórn. Stjórnin er kosin á aðalfundi ár hvert en hún útdeilir sjálf hlutverkum milli stjórnarmeðlima.

7. grein. Hlutverk stjórnar er að móta stefnu félagsins og vinna að þeim markmiðum sem greint er frá í lögum þess. Þá skal stjórnin einnig skipa fulltrúa doktorsefna til setu í nefndum, ráðum og stjórnum sem doktorsefni hafa seturétt í, svo sem stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms og Vísindanefnd. Skipað er til árs í senn en skipun má framlengja tvisvar sinnum. Mælst er til þess að skipað sé úr röðum stjórnarmeðlima ellegar séu tryggð náin samskipti stjórnar og fulltrúa. Stjórnin getur kallað fulltrúa á fund til sín og jafnframt skulu þeir skila skýrslu til stjórnar eftir hvern nefndar-, ráðs- eða stjórnarfund.

8. grein. Stjórnin getur kallað til almenns félagafundar hvenær sem er og skal það gert með að lágmarki 3 daga fyrirvara.

9. grein. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum félagsins. Ákvörðun um slit félags verður aðeins tekin á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða og renna eignir þess þá til Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

10. grein. Lögum þessum má breyta á aðalfundi. Lög þessi taka gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau.

Reykjavík, 20. mars 2018

Þessi færsla var birt undir Lagabreytingar, Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.