Áskorun um að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema

Áskorun um að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema

Stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands skorar á rektor að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema sem fyrst, í seinasta lagi í ársbyrjun 2019.

Embætti umboðsmanns doktorsnema er víða að finna þar sem doktorsnám hefur tekið á sig skýra mynd. Á hinum Norðurlöndunum er embættið að finna í flestum háskólum en mismunandi er þó hvar það er staðsett, ýmist innan stjórnsýslu og/eða nemendafélaga. Sem dæmi má nefna að í háskólanum í Lundi er það á vegum doktorsnemafélags skólans en í Stokkhólmsháskóla er embættið hluti af stjórnsýslunni. Í sumum tilfellum er prófessor í embætti umboðsmanns eins og í háskólanum í Heidelberg og í Maryland-háskóla. Hlutverk þessara embætta er að veita doktorsnemum aðstoð við stór og smá málefni sem og að gegna hlutverki miðlara þegar upp koma samskiptaörðugleikar eða deilumál milli doktorsnema og leiðbeinanda.

Umboðsmaður doktorsnema við Háskóla Íslands

Fedon telur að mikilvægt sé að tryggja sjálfstæði embættisins gagnvart stjórnsýslu, þar með talið Miðstöð framhaldsnáms, sviðum og deildum en að jafnframt sé embættið á ábyrgð háskólans en ekki nemendafélaga. Fedon stingur upp á að embættið heyri beint undir rektorsskrifstofu á sama hátt og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands gerir. Mikilvægt er að í reglum um embættið verði skýrt kveðið á um sjálfstæði embættisins. Þó að embættið hafi ekki úrskurðarvald telur Fedon að mikilvægt sé að umboðsmaður geti, í kjölfar kvörtunar eða á eigin spýtum, sent frá sér ráðgefandi álit.

Hlutverk umboðsmanns doktorsnema

Fedon sér fyrir sér að skrifstofa umboðsmanns doktorsnema verði vettvangur fyrir doktorsnema að leita til þegar upp koma vandamál, persónuleg eða fagleg.[1] Í sumum tilvikum myndi umboðsmaður vísa nemendum áfram á annan vettvang.

Umboðsmaður gætir fyllsta trúnaðar við alla þá sem koma að máli við hann og mætti aldrei fara lengra með mál nema fyrir því lægi skýrt samþykki hlutaðkomandi. Þá telur Fedon mikilvægt að sú manneskja sem sinnir embættinu hafi sjálf doktorspróf enda hafi hún þá gengið í gegnum það ferli og þekki þau vandamál sem upp geta komið.

Hlutverk umboðsmanns doktorsnema:

 • Doktorsnemandi getur leitað til umboðsmanns með spurningar sem vakna við námið varðandi t.d. skyldur, réttindi og tækifæri.
  • Dæmi: Upplýsingar um rétt í fæðingarorlofi; upplýsingar um hvað felst í skyldum nemanda til að vera virkur þátttakendur í faglegri umræðu; upplýsingar um möguleika á sameiginlegu doktorsnámi (e. joint degree); upplýsingar um reglur um leiðbeiningu.
 • Umboðsmaður gegnir hlutverki miðlara þegar upp koma vandamál milli doktorsnema og leiðbeinanda, nefndar, námsbrautar, deildar eða sviðs.
  • Dæmi: Nemanda finnst leiðbeinandi ekki sinna sér sem skyldi; upp koma samskiptaörðugleikar við deildarforseta; aðili í doktorsnefnd er ófaglegur í samskiptum við nemanda.
 • Umboðsmaður styður við nemendur í erfiðum tilfellum á borð við veikindi eða ef nemandi verður fyrir áreitni eða einelti. Umboðsmaður getur, með leyfi nemanda, leitað til leiðbeinanda, námsbrautar, deildar eða sviðs til að uppvísa þá um málið og tryggja skilning. Einnig getur umboðsmaður vísað nemanda á sálfræðiráðgjöf innan NSHÍ eða hjá sálfræðiráðgjöf háskólanema.
  • Dæmi: Nemandi greinist með alvarlegan sjúkdóm og þarf aðstoð við að ákveða næstu skref; nemandi verður fyrir faglegu einelti af starfsmanni skóla eða samnemanda; nemandi verður fyrir áfalli í persónulegu lífi.
 • Umboðsmaður tekur við ábendingum nemanda ef námsbrautir, deildir eða svið eru ekki að sinna skyldum sínum. Unnið yrði úr slíkum ábendingum nafnlaust.
  • Dæmi: Doktorsnemi telur að svið sé ekki að tryggja gæði doktorsnáms við háskólann; doktorsnemi telur að ekki sé farið eftir reglum háskólans.

Mikilvægi embættisins og stefna Háskóla Íslands

Í stefnu HÍ fyrir árabilið 2016–2021 kemur fram að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur. Fram kemur að umgjörð doktorsnáms skuli styrkt og að stuðningur við leiðbeinendur og nemendur verði aukinn auk þess sem skýra eigi verkferla og styðja betur við framvindu doktorsnema. Fedon telur að stofnun embættis umboðsmanns doktorsnema sé mikilvægt skref í þeirri vinnu. Með embætti umboðsmanns doktorsnema yrði komið á fót óháðri miðlægri stöð sem doktorsnemar gætu leitað til með þeirri fullvissu að þeirra hagsmunir yrðu ávallt virtir og að fullum trúnaði væri heitið.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)
Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)
Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið)
Deirdre Clark (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

[1] Sjá til dæmis lýsingu á embættinu við Stokkhólmsháskóla: https://www.sus.su.se/en/phd-student-ombudsman/.

Þessi færsla var birt undir Áskoranir. Bókamerkja beinan tengil.