Áskorun vegna nýdoktors- og doktorsstyrkja

Áskorun um að hefja aftur veitingu nýdoktorsstyrkja og fjölga doktorsstyrkjum

Í kjölfar aukinnar fjárveitingar til Háskóla Íslands/Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands skorar stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands á rektor að fjölga doktorsstyrkjum og hefja aftur veitingu nýdoktorsstyrkja.

Grundvöllur þess að doktorsnemar og nýdoktorar geti sinnt verkefnum sínum og þannig stuðlað að nýsköpun og framgangi fræðanna er aðgangur að fjármagni. Því miður er það svo að styrkir til doktorsnáms eru alltof fáir á Íslandi. Aðeins 15 doktorsnemar af þeim 73 (21%) sem sóttu um doktorsnemastyrk Rannís úthlutunarárið 2018 fengu styrk í eigin nafni. Árið 2017 fengu 29 doktorsnemar doktorsstyrki frá Háskóla Íslands af 146 umsækjendum.

Ástandið er jafnvel alvarlegra hjá nýdoktorum. Háskóli Íslands hefur ekki úthlutað nýdoktorsstyrkjum síðan 2015 og er alls kostar óljóst hvenær úthlutanir hefjast á ný. Rannsóknastöðustyrkir Rannís, sem ætlaðir eru nýdoktorum, eru fáir. Af 63 umsækjendum fyrir árið 2018 hlutu aðeins 11 styrk í eigin nafni (18%).

Í stefnu HÍ fyrir árabilið 2016–2021 kemur fram að stuðla eigi að nýliðun í rannsóknum og að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur. Fedon fagnar þeirri stefnu að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur og hvetur til þess að sú aukna fjárveiting sem skólinn hefur fengið verði að hluta til notuð til að vinna að þessu markmiði því ljóst er að núverandi ástand stuðlar síður en svo að nýliðun.

Áskorun Fedon er í þrennu lagi:

Í fyrsta lagi skorar Fedon á rektor að Háskóli Íslands auglýsi á ný nýdoktorsstyrki og jafnframt að nýdoktorsstöður verði héðan í frá auglýstar árlega fyrir allar deildir.

Í öðru lagi skorar Fedon á rektor að auka fjölda doktorsstyrkja. Of fáir nemendur fá nú styrk með þeim afleiðingum að margir flosna upp úr námi eftir að hafa helgað árum af lífi sínu rannsóknum sem skila engri formlegri viðurkenningu.

Í þriðja lagi skorar Fedon á rektor að hækka upphæð þeirra doktorsstyrkja sem veittir eru. Eins og staðan er í dag er styrkfjárhæðin langt undir þeim mörkum sem velferðarráðuneytið telur að fólk þurfi til að framfleyta sér.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:
Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)
Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)
Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið)
Deirdre Clark (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

Þessi færsla var birt undir Áskoranir. Bókamerkja beinan tengil.