Ályktun Fedon um fjárskort í málefnum doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Ályktun Fedon um fjárskort í málefnum doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands lýsir yfir áhyggjum af miklum fjárskorti Háskóla Íslands og þeim áhrifum sem sá skortur hefur á doktorsnema og nýdoktora við skólann.

Á nýafstöðnum ársfundi Háskóla Íslands kom fram að 8–9 milljarða skorti í viðbótarfjármagn á ári til að ná sambærilegri fjármögnum og háskólar annars staðar á Norðurlöndunum búa við. Jafnframt kom fram að til að mæta brýnustu þörfinni þyrfti að setja 1,5 milljarða króna í rekstur Háskóla Íslands strax.

Rektor kynnti einnig á ársfundinum þau gleðilegu tíðindi að Háskólinn hafi komist á svokallaðan Sjanghaí-lista yfir 500 bestu háskóla heims. Þetta er þrátt fyrir að búa við langvarandi fjárskort sem hefur neikvæð áhrif á hag nemenda og velferð starfsmanna sem vinna mjög óeigingjarna vinnu við að halda uppi gæðum skólans þótt þeim sé þröngt sniðinn stakkur. Við ákvörðun á niðurskipan skóla á Sjanghaí-listanum er horft til sex meginþátta, t.a.m. fjölda vísindagreina sem birtar eru í virtum fræðitímaritum og fjölda tilvitnana í rannsóknir á vegum háskólans. Mikilvægt er að hafa í huga að hinn mikli fjöldi doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands (597 talsins árið 2016) og birtingar á rannsóknum þeirra teljast hér einnig með.

Fjárskortur skólans hefur hins vegar mikil áhrif á möguleika doktorsnema og nýdoktora til að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Grundvöllur þess að doktorsnemar og nýdoktorar geti sinnt verkefnum sínum og þannig stuðlað að auknum rannsóknum er aðgangur að fjármagni. Því miður er það svo að styrkir til doktorsnáms eru alltof fáir á Íslandi. Sé horft til úthlutunar helstu sjóða árið 2017, Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands + Eimskipasjóð og Rannsóknasjóðs Rannís (sem úthlutar einnig til rannsakanda utan HÍ), má sjá að útlitið er ekki gott. Af 60 umsóknum um doktorsnemastyrki Rannís hlutu aðeins 14 styrk (24%) en úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands + Eimskipasjóði hlutu 25 styrk af 146 umsækjendum (22%). Ljóst er að þetta er engan veginn fullnægjandi fjármagn. Fyrir úthlutunarárið 2018 bárust 77 umsóknir um doktorsnemastyrk Rannís og verði fjármagn í sjóðinn ekki aukið má gera ráð fyrir að aðeins 18% umsókna hljóti styrk.

Ástandið er jafnvel alvarlegra hjá nýdoktorum. Rannsóknasjóður Háskólans hefur ekki úthlutað nýdoktorsstyrkjum síðan 2015 og er alls kostar óljóst hvenær úthlutanir hefjast á ný. Rannsóknastöðustyrkir Rannís, sem ætlaðir eru nýdoktorum, eru fáir. Af 50 umsækjendum fyrir úthlutunarárið 2017 hlutu aðeins 14 styrk (28%). Umsóknum um rannsóknarstöðustyrki hefur einnig fjölgað milli ára en 66 umsóknir bárust fyrir úthlutunarárið 2018.

Til þess að viðhalda öflugum rannsóknaháskóla á alþjóðavísu er nauðsynlegt að tryggja fjármagn fyrir rannsóknir bæði doktorsnema og nýdoktora. Ef vilji er fyrir hendi að halda úti háskólastigi á landinu, mennta og sérhæfa fólk til ólíkra verkefna, er nauðsynlegt að bjóða upp á sterkt og vel fjármagnað doktorsnám. Til að tryggja nýliðun í háskólum og við rannsóknir er einnig nauðsynlegt að nýútskrifaðir doktorar eigi möguleika á að halda áfram rannsóknum sínum með því að boðið sé upp á nýdoktorsstöður við Háskóla Íslands og rannsóknastöðustyrki Rannís. Í nútíma háskólaumhverfi er nýdoktorsstaða orðin nær ófrávíkjanleg forsenda þess að geta fengið fasta stöðu á rannsóknarstofnunum eða við kennslu og haldi áfram sem fram horfir er hætt á að margir flosni úr rannsóknum og frá æðri menntastigum sem myndi hafa slæm áhrif á samfélagið í heild sinni.

Í ljósi alls þessa skorar Fedon á stjórnvöld að auka fjármagn til Háskóla Íslands og Rannsóknasjóðs Rannís og að hugað verði sérstaklega að þörfum doktorsnema og nýdoktora við þá vinnu. Framtíð Háskóla Íslands býr í doktorsnemum og nýdoktorum og ef viðhalda á þeim góða árangri sem áunnist hefur er nauðsynlegt að búa vel að þessum hópi.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:

Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)

Guðrún Sif Friðriksdóttir (Félagsvísindasvið)

Deirdre Clark (Verkfræði- og Náttúruvísindasvið)

Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

Teresa Dröfn Njarðvík (Hugvísindasvið)

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.