Umsögn frá FEDON – Félagi doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands við frumvarp menntamálaráðherra um Stuðningssjóð Íslenskra námsmanna.

Stjórn FEDON – Félags doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands tekur undir umsögn Stúdentaráðs Háskóla Íslands í meginatriðum. Það er jákvætt skref að nemendur eigi kost á því að fá hluta námslána felldan niður og gerir það nám á háskólastigi almennt bærilegra. Þá kann það að koma þeim doktorsnemum til góða sem fjármagna doktorsnám sitt með námslánum. FEDON vill þó koma að athugasemdum við frumvarp menntamálaráðherra um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna, sem varða doktorsnema.

Continue reading

Posted in LÍN

Yfirlýsing nemendafélaga vegna niðurskurðar til Rannsóknasjóðs

Undirrituð lýsa yfir alvarlegum áhyggjum af fyrirhuguðum 147 milljóna króna niðurskurði til Rannsóknasjóðs í fjárlögum 2019. Í stóra samhengi fjárlaga hljómar þetta kannski ekki sem mikil fjárhæð en fyrir þá sem reiða sig á sjóðinn er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða. Sé talan sett í samhengi við árslaun þá kemur í ljós að með þessari fjárhæð væri hægt að fjármagna tæp þrjátíu árslaun doktorsnema eða tuttugu og ein árslaun nýdoktora.[1] Þetta er því mikið högg fyrir íslenskt fræðasamfélag sem reiðir sig í stórum stíl á þennan sjóð. Sérstaklega höfum við undirrituð áhyggjur af stöðu doktorsnema og nýrannsakenda verði af þessum niðurskurði en sá hópur byggir afkomu sína nær algjörlega á úthlutunum úr samkeppnissjóðum. Á seinustu árum hefur árangurshlutfall úr Rannsóknasjóði lækkað verulega, úr 29,6 prósentum árið 2015 í 18,4 prósent í ár, jafnvel þó að ekki hafi verið skorið niður til sjóðsins að ráði.[2] Verði af fyrirhuguðum niðurskurði er ljóst að árangurshlutfallið mun lækka verulega í úthlutun ársins 2019.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 segir:

Fjármögnun doktorsnema er ótrygg og nýliðun akademískra starfsmanna víða ófullnægjandi. Þetta skapar hættu á að sú nýja þekking sem gjarnan fylgir ungum vísindamönnum skili sér illa inn í háskólana og að það dragi úr tengslum við erlent fræðasamfélag.

Undir þessi orð ríkisstjórnar taka undirrituð. Við teljum ljóst að fyrirhugaður niðurskurður muni hafa gríðarleg áhrif á doktorsnám í landinu þar sem brottfall mun að öllum líkindum aukast og nýliðun minnka. Möguleikar nýrannsakenda munu að sama skapi snarminnka sem mun valda atgervisflótta og veikja vísindarannsóknir og háskólana til langframa. Við skorum því á þingmenn að leiðrétta framlög til menntamála svo að unnt sé að veita nægileg framlög til rannsókna og vísinda við háskóla og fræðastofnanir á Íslandi.

Undir þessa yfirlýsingu rita:
Fedon – félag doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands
Stúdentaráð Háskóla Íslands
LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta
SÍNE – Samband íslenskra námsmanna erlendis
RUPA – félag doktorsnema við Háskólann í Reykjavík
Arkímedes – félag doktorsnema við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands
DNR/HVS – doktorsnemaráð Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands
Félag doktorsnema á Menntavísindasviði Háskóla Íslands
Hugdok – félag doktorsnema og nýrannsakenda við Hugvísindasvið Háskóla Íslands
Seigla: Félag doktorsnema á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands
Nemendafélag Háskólans á Bifröst
Stúdentafélag Háskólans á Akureyri
Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík

[1] Forsendur miða við einstaklingsstyrki.

[2] Byggt á skýrslum Rannís um úthlutanir frá árunum 2015–2018. Skýrslurnar eru aðgengilegar hér: https://www.rannis.is/sjodir/rannsoknir/rannsoknasjodur/tolfraedi-rannsoknasjods/

Posted in Áskoranir

Kynningarfundur doktorsnema / PhD student orientation meeting

Kæru doktorsnemar,

Miðstöð framhaldsnáms og Fedon – félag doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands bjóða upp á kynningardagskrá og móttöku fyrir nýja doktorsnema þann 25. september í Stúdentakjallaranum. Ekki missa af tækifærinu að kynnast öðrum doktorsnemum og fræðast um alla þá þjónustu sem háskólinn býður doktornemum upp á. Kynningin er ætluð þeim doktorsnemum sem hófu nám 2017 eða 2018 en allir eru hjartanlega velkomnir. Boðið verður upp á léttar veitingar og bjór. Skráning fer fram hér:

 

https://ugla.hi.is/vidburdir/SkodaVidburd.php?vidburdur_id=2870

 

Dear PhD students,

The Graduate School and Fedon, the University of Iceland’s association of doctoral students and post-docs, invite you to a New PhD Student Orientation and Reception on September 25th in the Stúdentakjallarinn student bar. Don’t miss the opportunity to meet other PhD students and learn about the wide range of services the university has to offer. The meeting is open to all PhD students. Snacks and beer will be served. Please register here:

https://ugla.hi.is/vidburdir/SkodaVidburd.php?vidburdur_id=2870

Posted in Fundir

Ályktun vegna úthlutunarreglna LÍN fyrir 2018-2019

Ályktun Fedon – Félags doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands vegna nýrra úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2018–2019.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2018–2019 sem kynntar voru í síðustu viku er tekið mikilvægt skref í átt að kjarabótum námsmanna sem reiða sig á LÍN-lán með hækkun framfærslugrunns námsmanna úr 92% í 96%. Fedon telur þó að menntamálaráðherra hefði átt að taka skrefið til fulls enda ótækt að nemendur þurfi að sætta sig við að vera undir framfærsluviðmiðum. Núverandi framfærslugrunnur er alltof lágur og er það mat Fedon að hlutverki LÍN um að tryggja öllum jafnt tækifæri til náms án tillits til efnahags sé ekki sinnt sem skyldi við þessar aðstæður.

Aðrar mikilvægar breytingar í átt að jafnrétti til náms eru teknar í nýjum úthlutunarreglum þar sem nú eiga einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar eða hafa dvalarleyfi á Íslandi vegna mannúðarsjónarmiða rétt á námslánum og ber að hrósa ríkisstjórn fyrir að taka þetta veigamikla skref.

Stjórn Fedon lýsir aftur á móti yfir vonbrigðum með að hámarkslántökuréttur stendur í stað milli ára. Í úthlutunarreglum frá skólaárinu 2015–2016 var réttur til lántöku lækkaður úr 600 einingum (10 ára nám) niður í 540 einingar (9 ára nám) og fyrir skólaárið þar á eftir var hann lækkaður enn frekar, eða í 480 einingar (8 ára nám). Þessar skerðingar hafa helst bitnað á doktorsstiginu. Á Íslandi er doktorsnám ýmist þriggja ára (180 ECTS einingar) eða fjögurra ára (240 ECTS einingar) en í úthlutunarreglunum eru aðeins 60 einingar eyrnamerktar doktorsstiginu. Hafi doktorsefni hins vegar ekki áður nýtt sér 120 eininga svigrúm sitt (sem nær yfir öll námsstigin) er mögulegt að fjármagna doktorsnám til þriggja ára. Ómögulegt er að fjármagna fjögurra ára doktorsnám á lánum jafnvel þó að boðið sé upp á slíkt nám við íslenska háskóla.

Það að svigrúm sem nýta má á fyrri námsstigum sé látið brúa bil til fjármögnunar doktorsnáms er ótækt enda gerir það að verkum að þeir sem skipta um námsleið á fyrri stigum eða vegna veikinda, endurtöku á samkeppnisprófum, barneigna eða annarra aðstæðna þurfa að nýta sér svigrúmið fyrr hafa mjög skerta möguleika á að stunda doktorsnám. Þetta bitnar sérstaklega á þeim sem eignast barn á námstímanum, fötluðum og langveikum og fer því þvert gegn félagslegu jöfnunarhlutverki sjóðsins.

Eins og Fedon hefur ítrekað bent á býr doktorsstigið á Íslandi við verulegan fjárskort en þrátt fyrir fyrirheit um annað hefur doktorsstyrkjum ekki fjölgað að ráði og síður en svo fylgt gríðarlegri fjölgun doktorsnema.* Það er því sérstaklega slæmt að LÍN bjóði ekki upp á lán fyrir fullu doktorsnámi. Núverandi ástand í lána- og styrkjamálum gerir doktorsnám að fjarlægum draumi fyrir marga sem er mikill missir fyrir samfélagið enda liggur framtíð háskóla og rannsókna á Íslandi undir.

* Sjá ályktun á heimasíðu félagsins nemendafelog.hi.is/fedon/2017/08/25/alyktun-fedon-um-fjarskort-i-malefnum-doktorsnema-og-nydoktora-vid-haskola-islands/ og viðtal á Vísi í kjölfar hennar www.visir.is/g/2018180209944.

Posted in LÍN

Tillaga um breytingu á lögum Fedon

Eftirfarandi tillaga að breytingu á lögum Fedon verður lögð fyrir á aðalfundi 20. mars næstkomandi.

Athugið að gildandi lög félagsins má lesa hér: http://nemendafelog.hi.is/fedon/constitution/ og lög frá stofnfundi má lesa hér: http://nemendafelog.hi.is/fedon/constitution/eldri-log/.

Lög Fedon – félags doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands

Skilgreiningar hugtaka:

 • Doktorsefni teljast allir þeir sem skráðir eru í doktorsnám við Háskóla Íslands.
 • Nýrannsakendur eru allir þeir sem hafa á síðastliðnum sjö árum lokið doktorsgráðu og eru ráðnir í tímabundna stöðu við háskólann eða tengdar stofnanir (til dæmis nýdoktorsstöðu, rannsóknarstöðu) eða eru með öðru móti tengdir háskólanum (til dæmis stundakennarar).

1. grein. Nafn félagsins er Fedon – félag doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands eða Fedon – The University of Iceland’s Association of Doctoral Candidates and Early-Career Researchers á ensku. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein. Markmið félagsins er að vinna að hagsmunamálum doktorsefna og nýrannsakenda við Háskóla Íslands.

3. grein. Kosningarétt, kjörgengi og tillögurétt hafa allir þeir sem falla undir ofangreindar skilgreiningar á doktorsefnum og nýrannsakendum við Háskóla Íslands. Ákvarðanir eru teknar með meirihluta atkvæða.

4. grein. Aðalfundur félagsins skal haldinn ekki síðar en í maí ár hvert. Fjárhagsár félagsins fylgir almanaksárinu. Boði stjórn félagsins ekki aðalfundar geta félagsmenn kallað til aðalfundar með undirskrift 30 meðlima.

 • Til aðalfundar skal stjórnin boða með sannanlegum hætti með minnst 7 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina fundartíma, fundarstað og dagskrá.
 • Vilji félagi fá mál tekið fyrir til atkvæðagreiðslu á aðalfundi skal hann greina stjórn frá því skriflega með þeim fyrirvara að unnt sé að geta þeirra í fundarboði.
 • Breytingar á lögum félagsins er aðeins hægt að samþykkja á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða. Allar breytingartillögur skulu kynntar með minnst 7 daga fyrirvara.
 • Á dagskrá aðalfundar skal vera:
  1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  2. Ársreikningur liðins reikningsárs lagður til samþykktar.
  3. Kosningar: (a) stjórn, (b) tveir skoðunarmenn reikninga.
  4. Mál sem tiltekin eru í fundarboði.
  5. Önnur mál.

6. grein. Mælst er til þess að í stjórn félagsins sitji 10 aðilar og að hún sé samsett af 2 fulltrúum frá hverju sviði skólans (Félagsvísindasvið, Heilbrigðisvísindasvið, Hugvísindasvið, Menntavísindasvið, Verkfræði- og náttúruvísindasvið); einum aðalmanni og einum varamanni. Þá skal leitast eftir því að hafa hlutfall doktorefna og nýrannsakanda sem jafnast sem og kynjahlutfall. Sé ekki unnt að uppfylla þessi tilmæli vegna skorts á frambjóðendum má fylla stjórnina með öðrum hætti. Aðeins meðlimir félagsins geta setið í stjórn. Stjórnin er kosin á aðalfundi ár hvert en hún útdeilir sjálf hlutverkum milli stjórnarmeðlima.

7. grein. Hlutverk stjórnar er að móta stefnu félagsins og vinna að þeim markmiðum sem greint er frá í lögum þess. Þá skal stjórnin einnig skipa fulltrúa doktorsefna til setu í nefndum, ráðum og stjórnum sem doktorsefni hafa seturétt í, svo sem stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms og Vísindanefnd. Skipað er til árs í senn en skipun má framlengja tvisvar sinnum. Mælst er til þess að skipað sé úr röðum stjórnarmeðlima ellegar séu tryggð náin samskipti stjórnar og fulltrúa. Stjórnin getur kallað fulltrúa á fund til sín og jafnframt skulu þeir skila skýrslu til stjórnar eftir hvern nefndar-, ráðs- eða stjórnarfund.

8. grein. Stjórnin getur kallað til almenns félagafundar hvenær sem er og skal það gert með að lágmarki 3 daga fyrirvara.

9. grein. Stjórnin ber ábyrgð á fjármálum félagsins. Ákvörðun um slit félags verður aðeins tekin á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða og renna eignir þess þá til Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

10. grein. Lögum þessum má breyta á aðalfundi. Lög þessi taka gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau.

Reykjavík, 20. mars 2018

Posted in Lagabreytingar, Uncategorized

Aðalfundur Fedon þriðjudaginn 20. mars

Aðalfundur Fedon verður haldinn þriðjudaginn 20. mars kl. 16.00 í Árnagarði, stofu 101.

Dagskrá:

 1. Venjuleg aðalfundarstörf
  1. Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
  2. Ársreikningur liðins reikningsárs lagður til samþykktar.
 2. Kosning stjórnar.
 3. Breyting á lögum Fedon (breytingartillögur verða auglýstar tímanlega).
 4. Önnur mál.

Að aðalfundi loknum verður boðið upp á veitingar. Við hvetjum alla doktorsnema og nýdoktora til þess að mæta og dreifa fundaboði sem víðast.

Facebook-viðburður: https://www.facebook.com/events/915668848593407/.

English

The Fedon Annual General Meeting will be held on March 20th at 16:00 in Árnagarður, room 101. Please share this with your fellow PhD candidates and Post-docs. All are welcomed.

Posted in Fundarboð

Áskorun um að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema

Áskorun um að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema

Stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands skorar á rektor að setja á fót embætti umboðsmanns doktorsnema sem fyrst, í seinasta lagi í ársbyrjun 2019.

Embætti umboðsmanns doktorsnema er víða að finna þar sem doktorsnám hefur tekið á sig skýra mynd. Á hinum Norðurlöndunum er embættið að finna í flestum háskólum en mismunandi er þó hvar það er staðsett, ýmist innan stjórnsýslu og/eða nemendafélaga. Sem dæmi má nefna að í háskólanum í Lundi er það á vegum doktorsnemafélags skólans en í Stokkhólmsháskóla er embættið hluti af stjórnsýslunni. Í sumum tilfellum er prófessor í embætti umboðsmanns eins og í háskólanum í Heidelberg og í Maryland-háskóla. Hlutverk þessara embætta er að veita doktorsnemum aðstoð við stór og smá málefni sem og að gegna hlutverki miðlara þegar upp koma samskiptaörðugleikar eða deilumál milli doktorsnema og leiðbeinanda.

Umboðsmaður doktorsnema við Háskóla Íslands

Fedon telur að mikilvægt sé að tryggja sjálfstæði embættisins gagnvart stjórnsýslu, þar með talið Miðstöð framhaldsnáms, sviðum og deildum en að jafnframt sé embættið á ábyrgð háskólans en ekki nemendafélaga. Fedon stingur upp á að embættið heyri beint undir rektorsskrifstofu á sama hátt og jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands gerir. Mikilvægt er að í reglum um embættið verði skýrt kveðið á um sjálfstæði embættisins. Þó að embættið hafi ekki úrskurðarvald telur Fedon að mikilvægt sé að umboðsmaður geti, í kjölfar kvörtunar eða á eigin spýtum, sent frá sér ráðgefandi álit.

Hlutverk umboðsmanns doktorsnema

Fedon sér fyrir sér að skrifstofa umboðsmanns doktorsnema verði vettvangur fyrir doktorsnema að leita til þegar upp koma vandamál, persónuleg eða fagleg.[1] Í sumum tilvikum myndi umboðsmaður vísa nemendum áfram á annan vettvang.

Umboðsmaður gætir fyllsta trúnaðar við alla þá sem koma að máli við hann og mætti aldrei fara lengra með mál nema fyrir því lægi skýrt samþykki hlutaðkomandi. Þá telur Fedon mikilvægt að sú manneskja sem sinnir embættinu hafi sjálf doktorspróf enda hafi hún þá gengið í gegnum það ferli og þekki þau vandamál sem upp geta komið.

Hlutverk umboðsmanns doktorsnema:

 • Doktorsnemandi getur leitað til umboðsmanns með spurningar sem vakna við námið varðandi t.d. skyldur, réttindi og tækifæri.
  • Dæmi: Upplýsingar um rétt í fæðingarorlofi; upplýsingar um hvað felst í skyldum nemanda til að vera virkur þátttakendur í faglegri umræðu; upplýsingar um möguleika á sameiginlegu doktorsnámi (e. joint degree); upplýsingar um reglur um leiðbeiningu.
 • Umboðsmaður gegnir hlutverki miðlara þegar upp koma vandamál milli doktorsnema og leiðbeinanda, nefndar, námsbrautar, deildar eða sviðs.
  • Dæmi: Nemanda finnst leiðbeinandi ekki sinna sér sem skyldi; upp koma samskiptaörðugleikar við deildarforseta; aðili í doktorsnefnd er ófaglegur í samskiptum við nemanda.
 • Umboðsmaður styður við nemendur í erfiðum tilfellum á borð við veikindi eða ef nemandi verður fyrir áreitni eða einelti. Umboðsmaður getur, með leyfi nemanda, leitað til leiðbeinanda, námsbrautar, deildar eða sviðs til að uppvísa þá um málið og tryggja skilning. Einnig getur umboðsmaður vísað nemanda á sálfræðiráðgjöf innan NSHÍ eða hjá sálfræðiráðgjöf háskólanema.
  • Dæmi: Nemandi greinist með alvarlegan sjúkdóm og þarf aðstoð við að ákveða næstu skref; nemandi verður fyrir faglegu einelti af starfsmanni skóla eða samnemanda; nemandi verður fyrir áfalli í persónulegu lífi.
 • Umboðsmaður tekur við ábendingum nemanda ef námsbrautir, deildir eða svið eru ekki að sinna skyldum sínum. Unnið yrði úr slíkum ábendingum nafnlaust.
  • Dæmi: Doktorsnemi telur að svið sé ekki að tryggja gæði doktorsnáms við háskólann; doktorsnemi telur að ekki sé farið eftir reglum háskólans.

Mikilvægi embættisins og stefna Háskóla Íslands

Í stefnu HÍ fyrir árabilið 2016–2021 kemur fram að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur. Fram kemur að umgjörð doktorsnáms skuli styrkt og að stuðningur við leiðbeinendur og nemendur verði aukinn auk þess sem skýra eigi verkferla og styðja betur við framvindu doktorsnema. Fedon telur að stofnun embættis umboðsmanns doktorsnema sé mikilvægt skref í þeirri vinnu. Með embætti umboðsmanns doktorsnema yrði komið á fót óháðri miðlægri stöð sem doktorsnemar gætu leitað til með þeirri fullvissu að þeirra hagsmunir yrðu ávallt virtir og að fullum trúnaði væri heitið.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)
Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)
Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið)
Deirdre Clark (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

[1] Sjá til dæmis lýsingu á embættinu við Stokkhólmsháskóla: https://www.sus.su.se/en/phd-student-ombudsman/.

Posted in Áskoranir

Áskorun vegna nýdoktors- og doktorsstyrkja

Áskorun um að hefja aftur veitingu nýdoktorsstyrkja og fjölga doktorsstyrkjum

Í kjölfar aukinnar fjárveitingar til Háskóla Íslands/Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands skorar stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands á rektor að fjölga doktorsstyrkjum og hefja aftur veitingu nýdoktorsstyrkja.

Grundvöllur þess að doktorsnemar og nýdoktorar geti sinnt verkefnum sínum og þannig stuðlað að nýsköpun og framgangi fræðanna er aðgangur að fjármagni. Því miður er það svo að styrkir til doktorsnáms eru alltof fáir á Íslandi. Aðeins 15 doktorsnemar af þeim 73 (21%) sem sóttu um doktorsnemastyrk Rannís úthlutunarárið 2018 fengu styrk í eigin nafni. Árið 2017 fengu 29 doktorsnemar doktorsstyrki frá Háskóla Íslands af 146 umsækjendum.

Ástandið er jafnvel alvarlegra hjá nýdoktorum. Háskóli Íslands hefur ekki úthlutað nýdoktorsstyrkjum síðan 2015 og er alls kostar óljóst hvenær úthlutanir hefjast á ný. Rannsóknastöðustyrkir Rannís, sem ætlaðir eru nýdoktorum, eru fáir. Af 63 umsækjendum fyrir árið 2018 hlutu aðeins 11 styrk í eigin nafni (18%).

Í stefnu HÍ fyrir árabilið 2016–2021 kemur fram að stuðla eigi að nýliðun í rannsóknum og að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur. Fedon fagnar þeirri stefnu að styðja eigi markvisst við unga rannsakendur og hvetur til þess að sú aukna fjárveiting sem skólinn hefur fengið verði að hluta til notuð til að vinna að þessu markmiði því ljóst er að núverandi ástand stuðlar síður en svo að nýliðun.

Áskorun Fedon er í þrennu lagi:

Í fyrsta lagi skorar Fedon á rektor að Háskóli Íslands auglýsi á ný nýdoktorsstyrki og jafnframt að nýdoktorsstöður verði héðan í frá auglýstar árlega fyrir allar deildir.

Í öðru lagi skorar Fedon á rektor að auka fjölda doktorsstyrkja. Of fáir nemendur fá nú styrk með þeim afleiðingum að margir flosna upp úr námi eftir að hafa helgað árum af lífi sínu rannsóknum sem skila engri formlegri viðurkenningu.

Í þriðja lagi skorar Fedon á rektor að hækka upphæð þeirra doktorsstyrkja sem veittir eru. Eins og staðan er í dag er styrkfjárhæðin langt undir þeim mörkum sem velferðarráðuneytið telur að fólk þurfi til að framfleyta sér.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:
Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)
Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)
Linda Sólveigar Guðmundsdóttir (Félagsvísindasvið)
Deirdre Clark (Verkfræði- og náttúruvísindasvið)
Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

Posted in Áskoranir

Kynning fyrir nýja doktorsnema / Introduction for new doctoral candidates

Fimmtudaginn 5. október bjóða Miðstöð framhaldsnáms og Fedon doktorsnemum, innrituðum frá og með 1. janúar 2016, til kynningardagskrár á Litla torgi, Háskólatorgi.

Tilgangur viðburðarins er að gefa doktorsnemum tækifæri á að öðlast vitneskju um þær starfseiningar skólans sem bjóða doktorsnemum upp á þjónustu og stuðning meðan á náminu stendur. Eftirtaldir aðilar munu, auk Fedon og Miðstöðvar framhaldsnáms, kynna starfsemi sína:

Náms- og starfsráðgjöf
Háskólabókasafn
Skrifstofa alþjóðasamskipta
Kennslumiðstöð
Vísinda- og nýsköpunarsvið

Einnig verður ánægjukönnun meðal doktorsnema sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun kynnt.

Fundurinn hefst kl. 15 og stendur formleg dagskrá á Litla torgi til kl. 17. Að því loknu verður boðið upp á léttar veitingar.

Fundurinn er haldinn á ensku.

Skráning á viðburðinn fer fram á Uglu og er skráningarfrestur 3. október kl. 16.00.

__________________________________________________________

The Graduate School and Fedon invite new PhD students, enrolled in the years 2016 and 2017, to an introductory meeting on October the 5th at Litla torg in Háskólatorg.

The purpose of the meeting is to introduce the several units within the University of Iceland which offer doctoral candidates services during the course of their studies. Along with The Graduate School and Fedon, the following units will introduce their services:

The University student counselling and career centre
The University library
The International office
The Centre for teaching and learning
The Division of science and innovation

Results from the Social science research institute’s satisfaction survey among Ph.D. students will also be presented.

The meeting will start at 15. When the formal programme ends at 17, participants will be offered light refreshments.

The meeting will be held in English.

Registration is on Ugla and ends on October 3 at 16.00.

Posted in Kynningarfundir

Ályktun Fedon um fjárskort í málefnum doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Ályktun Fedon um fjárskort í málefnum doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands

Stjórn Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands lýsir yfir áhyggjum af miklum fjárskorti Háskóla Íslands og þeim áhrifum sem sá skortur hefur á doktorsnema og nýdoktora við skólann.

Á nýafstöðnum ársfundi Háskóla Íslands kom fram að 8–9 milljarða skorti í viðbótarfjármagn á ári til að ná sambærilegri fjármögnum og háskólar annars staðar á Norðurlöndunum búa við. Jafnframt kom fram að til að mæta brýnustu þörfinni þyrfti að setja 1,5 milljarða króna í rekstur Háskóla Íslands strax.

Rektor kynnti einnig á ársfundinum þau gleðilegu tíðindi að Háskólinn hafi komist á svokallaðan Sjanghaí-lista yfir 500 bestu háskóla heims. Þetta er þrátt fyrir að búa við langvarandi fjárskort sem hefur neikvæð áhrif á hag nemenda og velferð starfsmanna sem vinna mjög óeigingjarna vinnu við að halda uppi gæðum skólans þótt þeim sé þröngt sniðinn stakkur. Við ákvörðun á niðurskipan skóla á Sjanghaí-listanum er horft til sex meginþátta, t.a.m. fjölda vísindagreina sem birtar eru í virtum fræðitímaritum og fjölda tilvitnana í rannsóknir á vegum háskólans. Mikilvægt er að hafa í huga að hinn mikli fjöldi doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands (597 talsins árið 2016) og birtingar á rannsóknum þeirra teljast hér einnig með.

Fjárskortur skólans hefur hins vegar mikil áhrif á möguleika doktorsnema og nýdoktora til að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Grundvöllur þess að doktorsnemar og nýdoktorar geti sinnt verkefnum sínum og þannig stuðlað að auknum rannsóknum er aðgangur að fjármagni. Því miður er það svo að styrkir til doktorsnáms eru alltof fáir á Íslandi. Sé horft til úthlutunar helstu sjóða árið 2017, Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands + Eimskipasjóð og Rannsóknasjóðs Rannís (sem úthlutar einnig til rannsakanda utan HÍ), má sjá að útlitið er ekki gott. Af 60 umsóknum um doktorsnemastyrki Rannís hlutu aðeins 14 styrk (24%) en úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands + Eimskipasjóði hlutu 25 styrk af 146 umsækjendum (22%). Ljóst er að þetta er engan veginn fullnægjandi fjármagn. Fyrir úthlutunarárið 2018 bárust 77 umsóknir um doktorsnemastyrk Rannís og verði fjármagn í sjóðinn ekki aukið má gera ráð fyrir að aðeins 18% umsókna hljóti styrk.

Ástandið er jafnvel alvarlegra hjá nýdoktorum. Rannsóknasjóður Háskólans hefur ekki úthlutað nýdoktorsstyrkjum síðan 2015 og er alls kostar óljóst hvenær úthlutanir hefjast á ný. Rannsóknastöðustyrkir Rannís, sem ætlaðir eru nýdoktorum, eru fáir. Af 50 umsækjendum fyrir úthlutunarárið 2017 hlutu aðeins 14 styrk (28%). Umsóknum um rannsóknarstöðustyrki hefur einnig fjölgað milli ára en 66 umsóknir bárust fyrir úthlutunarárið 2018.

Til þess að viðhalda öflugum rannsóknaháskóla á alþjóðavísu er nauðsynlegt að tryggja fjármagn fyrir rannsóknir bæði doktorsnema og nýdoktora. Ef vilji er fyrir hendi að halda úti háskólastigi á landinu, mennta og sérhæfa fólk til ólíkra verkefna, er nauðsynlegt að bjóða upp á sterkt og vel fjármagnað doktorsnám. Til að tryggja nýliðun í háskólum og við rannsóknir er einnig nauðsynlegt að nýútskrifaðir doktorar eigi möguleika á að halda áfram rannsóknum sínum með því að boðið sé upp á nýdoktorsstöður við Háskóla Íslands og rannsóknastöðustyrki Rannís. Í nútíma háskólaumhverfi er nýdoktorsstaða orðin nær ófrávíkjanleg forsenda þess að geta fengið fasta stöðu á rannsóknarstofnunum eða við kennslu og haldi áfram sem fram horfir er hætt á að margir flosni úr rannsóknum og frá æðri menntastigum sem myndi hafa slæm áhrif á samfélagið í heild sinni.

Í ljósi alls þessa skorar Fedon á stjórnvöld að auka fjármagn til Háskóla Íslands og Rannsóknasjóðs Rannís og að hugað verði sérstaklega að þörfum doktorsnema og nýdoktora við þá vinnu. Framtíð Háskóla Íslands býr í doktorsnemum og nýdoktorum og ef viðhalda á þeim góða árangri sem áunnist hefur er nauðsynlegt að búa vel að þessum hópi.

Fyrir hönd stjórnar Fedon – Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands:

Védís Ragnheiðardóttir (Hugvísindasvið)

Nanna Hlín Halldórsdóttir (Hugvísindasvið)

Guðrún Sif Friðriksdóttir (Félagsvísindasvið)

Deirdre Clark (Verkfræði- og Náttúruvísindasvið)

Renata Emilsson Pesková (Menntavísindasvið)

Teresa Dröfn Njarðvík (Hugvísindasvið)

Posted in Uncategorized