María Dóra Björnsdóttir

Doktorsnemi í náms- og starfsráðgjöf

Tölvupóstur: mdb(hjá)hi.is

Leiðbeinendur: Sif Einarsdóttir og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir

Áhugasvið: allt er viðkemur náms- og starfsráðgjöf, s.s. framkvæmd, aðferðir, mat á áhrifum, kenningar, matslistar og margt fleira.

Dr. verkefni: Evaluation of short and long term outcomes of two career interventions for students finishing uppersecondary school in Iceland.

Verkefnið byggist á megindlegri rannsókn á áhrifum tveggja námskeiða um náms- og starfsval á útskriftarnemendur í sjö íslenskum framhaldsskólum. Allir þátttakendur voru skráðir í áfanga sem eiga að undirbúa þá fyrir frekara nám eða þátttöku á vinnumarkaði að loknu stúdentsprófi. Nemendur í tveimur skólum fengu námskeið þar sem notuð var ráðgjafarnálgun (CIP) frá Florida State University og nemendur í öðrum tveimur skólum fengu námskeið byggt á áfanga sem kenndur er í framhaldsskóla í Reykjavík. Þrír skólar voru í samanburðarhópi og fylgdu þeir hefðbundinni námsskrá sinna áfanga.

Lagðir voru fyrir fjórir matslistar fyrir og eftir námskeiðin auk þess sem þátttakendur voru beðnir um að svara þremur matslistum ári síðar. Matslistarnir mældu óákveðni við náms- og starfsval, sjálfstraust til að framkvæma athafnir tengdar ákvörðunum um nám og störf, hamlandi hugsanir um náms- og starfsval og almenna ánægju með lífið.

Fyrstu niðurstöður gefa til kynnna að námskeið byggt á bandarískri ráðgjafarnálgun (CIP) auki sjálfstraust nemenda til að framkvæma mikilvægar athafnir til að geta tekið ákvarðanir um nám og störf og almenna ánægju með lífið, þegar til skemmri tíma er  litið. Marktækur munur virðist hins vegar ekki vera til staðar á áhrifum námskeiða til langs tíma.

MA. verkefni: Áreiðanleiki og réttmæti spurningalista (CTI) um ákvarðanatökuferli ráðþega í náms- og starfsráðgjöf.

Bandarískur spurningalisti, Carrer Thoughts Inventory (CTI), metur hversu tilbúinn ráðþegi er til að taka ákvörðun um nám eða starf og hvers konar ráðgjöf mætir þörfum hans sem best. Í þessari rannsókn var CTI listinn þýddur á íslensku og áreiðanleiki hans og réttmæti kannað. Tveir hópar, 314 háskólastúdentar og 93 ráðþegar Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands, svöruðu listanum háskólaárið 2006-2007. Athugað var hvort þrír undirkvarðar listans, DMC, CA og EC, kæmu fram í svörum stúdenta og hvort listinn greindi á milli stúdenta og ráðþega. Áreiðanleiki íslenskrar útgáfu CTI listans og undirkvarða hans var sambærilegur við áreiðanleika upprunalega bandaríska listans. Þrjár þáttalausnir, svipaðar undirkvörðunum, studdu hugtaksréttmæti listans og munur á skor ráðþega og stúdenta á öllum kvörðum studdi viðmiðsbundið réttmæti hans. Svo virðist sem CTI listann megi nota til að endurskoða og koma á meiri hagkvæmni í náms- og starfsráðgjöf fyrir íslenska háskólastúdenta.

Academia: Er ekki með tengil á Academia

Researchgate: Er ekki með síðu