Lög Linguae

Lög Linguae

1.grein. Heiti
Félagið heitir LINGUAE

2. grein.
Heimili félagsins og varnarþing er að Nýja Garði, Háskóla Íslands, Sæmundargötu 2.

3. grein. Tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er að annast hagsmuni tungumálanema við Háskóla Ísland ásamt því að efla félagslíf innan greinanna og vera í forsvari tungumálanema gagnvart háskólayfirvöldum.

4. grein.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því m.a.
1. Að efna til funda um akademísk og félagsleg málefni.
2. Að gangast fyrir vísindaferðum a.m.k. 4 sinnum á ári
3. Að vera vakandi um öll þau mál er snerta tungumálanema í landinu.
4. Að vera starfandi hagsmunafélag.

5. grein. Félagsaðild
Allir stúdentar innritaðir í erlend tungumál við Háskóla Íslands geta orðið félagar í Linguae.

6. grein. Starfstímabil
Starfstímabil kjörinnar stjórnar er skólaárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Þá skal ný stjórn kjörin á aðalfundi. Sitjandi stjórn skuldbindur sig til þess að koma nýrri stjórn á laggirnar og koma öllum þeim upplýsingum sem hún getur veitt um starfsemi stjórnarinnar áleiðis til nýrrar stjórnar fyrir lok skólaársins. Ný stjórn tekur við í lok skólaárs.

7. grein. Aðalfundur
1. Aðalfund skal halda fyrir lok vorannar en eigi síðar en 1.maí og skal boða til hans með að minnst viku fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála. Auka-aðalfundur skal haldinn innan þriggja vikna frá byrjun kennslu á haustmisseri. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Kosning stjórnar
6. Önnur mál
2. Á auka-aðalfundi er dagskrá sú sama og á aðalfundi að frátaldri skýrslu stjórnar og reikningum.

3. Allir meðlimir Linguae eru kjörgengir til stjórnar Linguae og annarra embætta á aðalfundi félagsins. Atkvæðisgreiðsla fer fram með handauppréttingum. Óski meðlimur Linguae eftir leynilegri atkvæðagreiðslu skal verða við því. Öllum meðlimum Linguae er frjálst að bjóða sig fram og greiða atkvæði í kosningum.

4. Meðlimir Linguae geta lagt fram lagabreytingartillögur minnst tveimur dögum fyrir aðalfund og auka-aðalfund. Skulu tillögurnar vera settar skipulega fram með rökstuðning. Tillögum skal skilað á tölvupóstfang stjórnar. Kosið er um tillögurnar á aðalfundi og auka-aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti mættra félagsmanna úrslitum kosninga. Kosið skal með handauppréttingum.

8.grein. Hlutverk innan stjórnar

Stjórn félagsins skal skipuð a.m.k. 3 félagsmönnum, formanni, gjaldkera og ritara sem kjörnir eru á aðalfundi til eins árs í senn. Eftir atvikum geta setið í stjórn félagsins viðburðastjóri, varaformaður og fulltrúi enskunema. Framboð til þessara embætta skulu berast á tölvupóstfang félagsins minnst 4 dögum fyrir aðalfund og auka-aðalfund félagsins. Einungis formaður getur boðað til aðalfundar og auka-aðalfundar. Eftirfarandi eru lýsingar á helstu ábyrgðarhlutverkum hvers stjórnarmeðlims fyrir sig.

8.1. Formaður heldur utan um málefni félagsins, boðar til funda stjórnarinnar a.m.k. einu sinni í mánuði og sér um að allir stjórnarmeðlimir sinni sínu hlutverki. Formaður er einnig tengiliður félagsins við kennara og stjórnendur Mála- og menningardeildar. Hann sér einnig um að allir stjórnarmeðlimir sinni sínu hlutverki.

8.2. Gjaldkeri heldur utan um fjármál nemendafélagsins, stendur fyrir fjáröflunum ef á þarf að halda og hefur yfirumsjón með styrktar- og afsláttarbeiðnum sem og samningum félagsins.
8.3 Ritari heldur utan um og ritar fundargerðir. Hans hlutverk er að hafa yfirumsjón með samfélagsmiðlum og heimasíðu félagsins. Ritari hefur yfirumsjón með tölvupóstsamskiptum nemendafélagsins; hann sér til þess að öllum tölvupóstum sé svarað af viðeigandi stjórnarmeðlim. Hann skuldbindur sig til að upplýsa félagsmenn um störf félagsins.

8.4. Viðburðastjóri heldur utan um viðburði félagsins og er tengiliður stjórnarinnar við aðila innan félaga og fyrirtækja sem nemendafélagið heimsækir. Hann sér um að viðburðir á vegum Linguae séu vel skipulagðir og auglýstir með góðum fyrirvara, þar á meðal nýnemakvöld, halloween partý, próflokapartý og árshátíð. Viðburðastjóri sér einnig um að halda afmæli félagsins hátíðlegt á vorönn en félagið var stofnað þann 14. apríl 2015.

8.5. Varaformaður er staðgengill formanns ef hann er vant við látinn. Hann sækir um þá styrki sem nemendafélagið á tilkall til og heldur utan um félagatal og félagaskírteini félagsins. Varaformaður ber ábyrgð á því að allir nemendur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands séu meðvitaðir um tilvist félagsins.

8.6. Fulltrúi enskunema sér um að upplýsa enskunema um starfsemi Linguae. Hann gerir upplýsingar aðgengilegar erlendum nemendum með því að færa þær á enska tungu.
9. grein. Hagsmunafulltrúar

1. Hagsmunafulltrúar sitja deildarráðs- og deildarfundi Mála- og menningardeildar. Hagsmunafulltruár skulu kjörnir á aðalfundi félagsins og skulu þeir vera tveir. Þeir gæta hagsmuna nemenda deildarinnar og tala þeirra máli á fundum. Hagsmunafulltrúar sitja deildarráðsfundi einu sinni í mánuði og deildarfundi tvisvar á önn, nema annað sé tekið fram. Æskilegt er að báðir fulltrúar sitji alla fundi en a.m.k. einn kjörinn fulltrúi skal sitja fundi. Hagsmunafulltrúar hafa áheyrnaraðild og málfrelsi á stjórnarfundum Linguae en gegna ekki öðrum hlutverkum innan stjórnarinnar fremur en þeir vilja.

2. Samkvæmt reglum skólans mega allt að fimm nemendur Mála- og menningardeildar sitja deildarfundi sem fara fram tvisvar á önn. Kjörnir hagsmunafulltrúar nemenda skulu mæta á deildarfundi, sbr. grein 9.1., en auk þeirra skal stjórn nemendafélags tilnefna þrjá aðra nemendur sem hafa áhuga á að sinna hlutverkinu.
10.grein. Félagsgjald
Stjórn Linguae ákveður félagsgjald í upphafi skólaárs. Félagsgjöld skulu innheimt í byrjun annar. Meðlimir stjórnar Linguae greiða því sem nemur hálfvirði félagsgjalda.
11. grein.
Félagið Linguae er ekki rekið í hagnaðarskyni. Markmið þess er að allt það fjármagn sem félaginu áskornast fari í að fjármagna félagslíf og störf félagsins.

12. grein.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og skulu eignir þess fengnar Hugvísindadeild til varðveislu, þar til tungumálanemar stofna annað félag, sem ótvírætt telst arftaki Linguae og fær það þá eignirnar.

13. grein.
1. Eftir að félagsmaður hefur fengið viðvörun vegna ósæmandi hegðunar, er heimilt að víkja honum úr félaginu hafi hann gert eitthvað sem kastar rýrð á félagið eða orðið því til verulegrar minnkunar og haldi því áfram þrátt fyrir viðvörunina. Réttindanautn í félaginu er þó bundin því skilyrði að félagar hafi greitt félagsgjöld. Meirihluti stjórnar þarf að vera samþykkur brottvísuninni að undangengnum stjórnarfundi.
2. Heimilt er að meina aðila utan Linguae aðgang að samkomum og öðrum viðburðum Linguae telji meirihluti stjórnar ástæðu til. Óheimilt er að mismuna fólki eftir trú, kyni, kynhneigð eða þjóðerni.

14. grein.
Komi fram tillaga um vantraust á stjórn eða einstaka stjórnarmeðlimi skal stjórn boða til félagsfundar, innan tveggja vikna frá þeim tíma er tillagan berst til stjórnar. Fundurinn telst lögmætur ef einn þriðji hluti félagsmanna mætir. Tillagan hlýtur samþykki ef þrír fjórðu hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Hljóti tillaga samþykki telst viðkomandi stjórn eða stjórnarmeðlimur hafa látið af embætti að fundinum loknum og skal fundarstjóri boða til aukafundar innan tveggja vikna. Á þeim fundi skal kjósa stjórn eða stjórnarmann, sem gegnir embætti fram að næsta aðalfundi. Meirihluti atkvæða ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig, eftir því sem við á, ef embættismenn félagsins segja af sér.

15. grein.
Stjórn Linguae er óheimilt að gera samninga eða stofna til fjárskuldbindinga sem til þess eru fallnar að binda hendur komandi stjórna. Séu samningar gerðir til lengri tíma en eins árs í senn skulu þeir innihalda uppsagnarákvæði Linguae til handa.
Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins.
Dagsetning: 14. 04. 2015.

Breytingar á lögum þessum voru samþykktar á auka-aðalfundi félagsins 12. september 2016.
Breytingar á lögum þessum voru samþykktar á aðalfundi félagsins 3. apríl 2017.